Erlent

Trump segir vopnalöggjöfina hafa "lítið að gera“ með árásina í Pittsburgh

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti á leið upp í forsetaflugvélina Air Force One.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á leið upp í forsetaflugvélina Air Force One. Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að skotvopnalöggjöf landsins hafi lítið að gera með árásina í bænahúsi gyðinga í Pittsburgh fyrr í dag. Forsetinn segir að hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásina ef vopnaður vörður hefði verið inni í bænahúsinu.

Að minnsta kosti ellefu létu lífið og tólf særðust í árásinni, þar af nokkrir lögreglumenn, sem gerð var í Tree of Life bænahúsinu í austurhluta borgarinnar.

Lögregla hefur staðfest að árásarmaðurinn hafi verið 46 ára að aldri, Robert Bowers að nafni. Hann á að hafa hrópað að „allir gyðingar [skuli] deyja“ þegar hann hóf skothríðina. Hann er í haldi lögreglu.

Niðurstaðan orðið önnur

Trump ræddi við fréttamenn um árásina áður en hann fór um borð í forsetaflugvélina á leið í ráðstefnu bænda í Indianapolis síðdegis í dag.

„Ef þeir hefði verið með einhverja vernd innan hofsins hefði niðurstaðan geta orðið allt öðruvísi. [...] Þau voru það ekki og því miður gat hann gert hluti sem hann hefði ekki átt að geta,“ sagði forsetinn.

Trump sagði að árásin hefði lítið að gera með skotvopnalöggjöf landsins. Hins vegar sagði hann að Bandaríkin ættu að herða lögin þannig að fleiri sem fremji glæpi sem þessa og yrðu dæmdir til dauða.

Eftir árás í Marjory Stoneman Douglas skólanum í Parkland í Flódída í febrúar síðastliðinn lagði Trump til að kennarar ættu að fá að bera vopn. Þannig væri hagt að koma í veg fyrir slíkar árásir.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×