Erlent

Eigandi Leicester einn af fimm sem fórust

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Vichai Srivaddhanaprabha eigandi Leicester City til hægri á myndinni.
Vichai Srivaddhanaprabha eigandi Leicester City til hægri á myndinni. EPA/Tim Keeton
Enska knattspyrnufélagið Leicester City hefur staðfest að allir fimm sem voru um borð í þyrlu eiganda félagsins, Vichai Srivaddhanaprabha, sem brotlenti fyrir utan leikvang liðsins í gærkvöldi, hafi farist í slysinu. Eigandinn var einn þeirra sem fórst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. BBC segir að lögregla í Leicester telji hina fjóra sem fórust í slysinu vera tveir aðstoðarmenn hans, Nursara Suknamai og Kaveporn Punpare, flugmaðurinn Eric Swaffer og farþegi að nafni Izabela Roza Lechowicz.

„Hugur allra er hjá fjölskyldu Vichai og fjölskyldum þeirra sem voru um borð í þessu hræðilega slysi,“ segir meðal annar í tilkynningunni frá félaginu. Í tilkynningunni segir einnig að mikill missir sé af Vichai og að Leicester city hafi verið fjölskylda undir hans stjórn.

Minningabók sem verður færð Srivaddhanaprabha fjölskyldunni, mun verða til staðar á King Power vellinum frá og með 30. október fyrir þá sem vilja minnast hans og votta virðingu sína.

Leikjum Leicester City á móti Southampton og Feyenoord hefur verið frestað.

Sjónarvottar lýstu því að þyrlan hefði aðeins náð að komast upp yfir áhorfendastúkuna og verið í loftinu stutta stund áður en að hún byrjaði að hrapa að því er segir í frétt Guardian.

Margir lögðu leið sína að leikvanginum á sunnudaginn og var haldin mínútu þögn fyrir leik Manchester United og Burnley sem fram fór í dag og þá spiluðu leikmenn með svört armbönd til þess að votta virðingu sína.


Tengdar fréttir

Segja eigandann hafa verið um borð í þyrlunni

Vichai Srivaddhanaprabha, eigandi knattspyrnufélagsins Leicester City, var um borð í þyrlunni sem brotlenti fyrir utan leikvang liðsins, King Power Stadium, í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×