Fótbolti

Guðbjörg á leið í aðgerð: Búin að spila þjáð í meira en ár

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Guðbjörg Gunnarsdóttir. vísir/Valli
Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, hefur spilað meidd síðasta ár og er nú loks á leið í aðgerð sem mun halda henni frá fótboltaiðkun einhverja mánuði.

Guðbjörg greindi frá þessu á Twitter í dag en tímabilið í Svíþjóð, þar sem hún spilar með Djurgården, lauk um helgina.

„Ég byrjaði að fá alvarlega verki í ökkla strax eftir EM á síðasta ári. Verkurinn versnaði á þessu ári og ég náði að lifa af með því að nota verkjalyf. Ástandið varð svo slæmt að í dag get ég ekki gengið eðlilega án lyfja,“ skrifar Guðbjörg á Twitter.

Hún segir frá því að í sumar hafi hún leitað sér álits sérfræðings sem sagði aðgerð vera einu lausnina. Guðbjörg kláraði tímabilið með Djurgården með aðstoð verkjalyfja en gengst undir hnífinn á morgun.

„Endurhæfingin verður ekki auðveld. Ég ælta mér að snúa aftur sterkari en nokkru sinni fyrr. Hvenær það verður veit ég ekki, en það er eftir mánuði ekki vikur.“

„Nú hef ég tíma sem mig hefur bráðvantað til þess að laga líkamann minn. Vonandi sný ég aftur fyrr en seinna,“ skrifar Guðbjörg að lokum.

Djurgården endaði tímabilið í áttunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 27 stig úr 22 leikjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×