Fótbolti

Gylfi Þór: Spennandi að spila gegn besta liði heims

Henry Birgir Gunnarsson í Guingamp skrifar
Gylfi á Stade de Roudourou í dag.
Gylfi á Stade de Roudourou í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson landsliðsfyrirliði er klár í slaginn fyrir leikinn gegn Frökkum á morgun. Honum finnst skemmtilegast að spila gegn bestu liðunum.

„Þetta leggst vel í mig enda eitt besta lið í heiminum og þetta verður mjög erfitt fyrir okkur. Til lengri tíma litið mun svona leikur styrkja okkur,“ sagði Gylfi Þór eftir blaðamannafund íslenska liðsins á Stade de Roudourou.

„Frammistaðan á móti Sviss var vonandi eitthvað sem kemur ekki fyrir aftur. Belgíuleikurinn var mjög erfiður. Við verðum að vera betri í vörninni og nýta okkar færi er þau gefast.“

Gylfi segir að það sé flott að fá þennan leik núna enda vill hann spila gegn bestu liðunum.

„Að spila gegn heimsmeisturunum hér í Frakklandi er eitthvað sem gerist ekki á hverjum degi. Allir í hópnum bíða spenntir enda skemmtilegast að spila við bestu liðin og bestu leikmennina.“

Þó svo það hafi orðið þjálfarabreytingar eftir HM og gengið ekki gott í síðustu leikjum segir Gylfi að stemningin sé enn sú sama.

„Þetta er mjög svipað og það var. Það vantaði marga í síðasta hóp og aðeins öðruvísi stemning þá. En hvað varðar leiki og æfingar er þetta eins og góður andi í hópnum. Það er alltaf jafn skemmtilegt að vera með strákunum,“ segir Gylfi sem er mátulega bjartsýnn á hagstæð úrslit gegn Frökkum.

„Auðvitað erum við að spila á móti besta liði heims í dag. Þetta verður erfitt á útivelli. Aðalmarkmiðið hjá okkur í þessari viku er að ná góðum úrslitum á móti Sviss.“

Gylfi Þór var aðeins gagnrýndur eftir síðasta leik þar sem hann mætti ekki í viðtöl eins og skyldur fyrirliða kveða á um. Hann sér eftir því.

„Maður tekur ekki alltaf réttar ákvarðanir í lífinu en eftir tvö slæm töp þá er maður ekki beint stemmdur í viðtöl til að segja réttu hlutina. Það er nóg af leikjum fram undan og ég skal mæta í viðtöl þá,“ segir Gylfi léttur.



 

Tengdar fréttir

Svona var blaðamannafundur Hamrén og Gylfa

Íslenska landsliðið í fótbolta mætir heimsmeistaraliði Frakka í vináttulandsleik í Frakklandi á morgun. Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén hélt blaðamannafund fyrir leikinn í dag ásamt Gylfa Þór Sigurðssyni og var Vísir með beina útsendingu og textalýsingu frá fundinum.

Emil ekki með gegn Frakklandi

Erik Hamren tilkynnti að Emil Hallfreðsson myndi ekki spila með Íslandi í Frakklandi á morgun. Þrír aðrir leikmenn eru tæpir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×