Fótbolti

Lloris man vel eftir víkingaklappinu á Arnarhóli

Henry Birgir Gunnarsson í Saint-Brieuc skrifar
Hugo Lloris.
Hugo Lloris.
Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði franska landsliðsins, segir að heimsmeistarar Frakka beri virðingu fyrir íslenska landsliðinu og hann býst við erfiðum leik í kvöld.

„Við búumst við erfiðum leik þó svo þetta sé vináttulandsleikur. Þessi leikur hjálpar okkur líka að undirbúa liðið fyrir leik gegn Þýskalandi á þriðjudag,“ segir Lloris og bætir við að liðið vilji ekki tapa sigurtilfinningunni.

„Það er mikilvægt að viðhalda sjálfstrausti og sigurtilfinningunni og því verðum við að vinna. Fólkið okkar býst við miklu af okkur.“

Æfing franska liðsins í gær var eiginlega bara partí með 18 þúsund áhorfendum og það fólk fer örugglega fram á stóran sigur í kvöld.

„Við verðum einbeittir og vitum hvers er vænst af okkur. Við berum mikla virðingu fyrir íslenska liðinu sem er komið með nýjan þjálfara og eflaust nýjar hugmyndir. Við þekkjum liðið vel enda hefur íslenska liðið staðið sig mjög vel síðustu ár. Þeir vilja keppa og mæta örugglega tilbúnir í slaginn.“

Franska liðið er eitt margra sem hefur tekið upp víkingaklappið og byrjaði eiginlega á því á EM fyrir tveimur árum síðan. Lloris segir það hafa verið magnaða sjón að sjá allt fólkið klappa með íslenska landsliðinu á Arnarhóli.

„Ég man enn eftir myndunum af því þegar íslenska liðið kom heim eftir EM. Það var ótrúlegt að sjá þetta,“ segir Lloris hrifinn.

„Þetta hefur stundum verið gert á völlum í Frakklandi og klappið sameinar fólk og leikmenn. Það er sérstaklega flott eftir sérstaka leiki. Víkingaklappið er táknrænt.“




Tengdar fréttir

Svona var blaðamannafundur Hamrén og Gylfa

Íslenska landsliðið í fótbolta mætir heimsmeistaraliði Frakka í vináttulandsleik í Frakklandi á morgun. Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén hélt blaðamannafund fyrir leikinn í dag ásamt Gylfa Þór Sigurðssyni og var Vísir með beina útsendingu og textalýsingu frá fundinum.

Hamrén: Þessi leikur er mikil áskorun

Erik Hamrén landsliðsþjálfari staðfesti í morgun að Emil Hallfreðsson myndi ekki spila vegna meiðsla og óvissa er með þrjá aðra. Æfingarnar hafa verið vel nýttar hér ytra og það þarf ekki að koma á óvart hvað hefur helst verið æft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×