Innlent

Skora á Alþingi að lögfesta veglínu í gegnum Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hreinn Haraldsson, þáverandi vegamálastjóri, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi ráðherra vegamála, skoðuðu Teigsskóg árið 2013.
Hreinn Haraldsson, þáverandi vegamálastjóri, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi ráðherra vegamála, skoðuðu Teigsskóg árið 2013. Vísir/Daníel
Hópur íbúa í Reykhólahreppi, sem kallar sig Velunnara Þ.H.-leiðar, hefur birt áskorun á fréttavef sveitarfélagsins og sent tölvupóst til íbúa þar sem þeir eru hvattir til að senda áskorun til formanns samgöngunefndar Alþingis um vegamál þess efnis að veglína Vestfjarðavegar um Teigsskóg verði lögfest. Áskorunin hljóðar svona:

„Við íbúar í Reykhólahreppi og sumarhúsaeigendur skorum á Alþingi og ríkisstjórn að semja strax lög sem heimili Vegagerðinni að bjóða út og hefja framkvæmdir eftir Þ.H. leið á Þjóðveg 60 – frá Kinnarstöðum að Kraká.“

Í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku lýsti Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps, þeirri skoðun sinni að sterkari rök væru fyrir því að brúa mynni Þorskafjarðar fremur en að leggja veginn um Teigsskóg. Bændur í sveitinni, sem sjá fram á rask fjögurra bújarða, hafa hins vegar lýst eindreginni andstöðu við brúarlausnina.

Leið Þ-H færi um Teigsskóg. Nýjasta útfærsla á brú yfir mynni Þorskafjarðar er kölluð leið R.Grafík/Hlynur Magnússon.
Lagafrumvörp hafa þrívegis verið flutt á Alþingi, fyrst árið 2010, í því skyni að höggva á hnútinn með sérlögum um að Vestfjarðavegur skuli fara um Teigsskóg, en ekki náð fram að ganga. 

Í fyrradag sást að Alþingi var fljótt að bregðast við þegar þingmál var flutt í þágu fiskeldis á Vestfjörðum. Þannig liðu aðeins tæpar níu klukkustundir frá því Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir lagabreytingu á fiskeldislögum, um að heimila rekstrarleyfi til bráðabirgða, þar til það var sent ríkisstjórn sem lög frá Alþingi. Ráðherrann mælti fyrir þingmálinu kl. 14.44, það fór til nefndar og í gegnum þrjá umræður, og var síðan samþykkt klukkan 23.25. 

Vegagerðin áformaði í þessari viku að birta mat sitt á því hvað brúarleiðin kostar, í samanburði við Teigsskóg, og hvaða tímaramma hún þyrfti. Birting þeirra upplýsinga frestast hins vegar fram í næstu viku, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×