Fótbolti

Kári: Þurfum að skera út mistökin

Kári reynir að verjast Paul Pogba í kvöld.
Kári reynir að verjast Paul Pogba í kvöld. Vísir/Getty
Varnarmaðurinn Kári Árnason skoraði glæsilegt mark þegar Ísland gerði 2-2 jafntefli gegn Frakklandi í vináttulandsleik ytra. Hann var samt svekktur eftir leikinn í kvöld, enda var Ísland 2-0 yfir þegar lítið var eftir af leiknum.

„Þetta var gaman framan af en svo svekkjandi. Í fyrra sköpðu þeir sér eitt færi sem [Rúnar] Alex varði mjög vel. Fyrir utan það sköpuðum við okkur betri færi og áttum skilið að vinna. Það var klaufaskapur að missa þetta niður,“ sagði Kári sem sagði að Íslandi hafi þurft á þessari frammistöðu að halda eftir tvo slaka leiki.

„Þeir eru með rosaleg gæði í sínu liði en við höfðum góða stjórn á þeim og litum töluvert betur út en í síðustu leikjum. Frammistaðan lofaði góðu en við þurfum að skera út mistökin,“ sagði Kári og bætti við að hann sé ekki viss um að vítaspyrnudómurinn sem Ísland fékk á sig hafi verið réttur.

Mark Kára var einkar flott - skalli eftir hornspyrnu sem Hugo Lloris átti ekki möguleika á að verja.

„Birkir Bjarna sagði við Gylfa að setja boltann á nærstöngina. Við tókum báðir hlaupið á nær og ég náði að afgreiða hann í samskeytin,“ sagði Kári sem var ánægður með að Ísland hafi náð að koma til baka eftir leikina í Þjóðadeildinni í september.

„Þó svo að við unnum ekki leikinn þá voru gæði hjá okkur. Nú þurfum við að vinna Sviss, þá eigum við enn möguleika á að vera í efsta styrkleikaflokki [þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM 2020],“ sagði Kári að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×