Skoðun

Tilfinningar og eiginhagsmunir

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Þeir eru þingmennirnir sem byggja vinnuaðferðir sínar á tilfinningum eins og „[ég] óttast ekki að allt fari á hliðina“ og eiginhagsmunum eins og „ég vil geta keypt hvítvín á sunnudegi þegar mér dettur í hug að elda humar.“

Nú gera þingmenn þessir enn aðra tilraunina til að koma vímuefni í matvörubúðir. Þá skiptir engu máli þótt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), Landlæknir og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hvetji þá til að henda frumvarpinu. Þá skiptir engu þótt Samgöngustofa lýsi áhyggjum af mikilli aukningu umferðarslysa vegna vímuefnaaksturs. Þá skiptir engu þótt áfengisneysla sé algengasta dánarorsök ungra karla í Evrópu. Og þá skiptir engu þótt meirihluti landsmanna vilji ekki áfengi í matvöruverslanir.

Þingmennirnir viðurkenna að áfengisneysla muni aukast en reyna að sannfæra okkur um að allt verði í lagi því áhersla verði lögð á forvarnir og fræðslu. Ef þeir myndu lesa stefnu velferðarráðuneytisins í áfengis- og vímuefnavörnum til ársins 2020 kæmust þeir fljótt að því að takmörkun á sölu áfengis (t.d. að selja áfengi í sérverslunum en ekki matvörubúðum) er árangursríkasta forvarnaraðgerðin! Sú stefna er ekki gripin úr lausu lofti eins og tilfinning þingmannanna heldur samrýmist vísindalegum staðreyndum sem unnið hefur verið út frá í 40 ár hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO).

Það er ógnvænlegt til þess að hugsa að þingmenn kynni sér ekki nógu vel málefni sem þeir standa fyrir því eitt svona frumvarp getur valdið gríðarlegri afturför í lýðheilsu landsins. Þingmenn eiga að afla þekkingar við vinnu sína líkt og aðrar stéttir samfélagsins og gera greinarmun á tilfinningum og staðreyndum. Ef við viljum hafa umhverfi okkar og samfélag sem heilbrigðast þá þarf að halda áfram þeirri vinnu að minnka skaðann sem áfengi veldur samfélaginu en ekki setja eiginhagsmuni og tilfinningar fram fyrir hagsmuni samfélagsins og niðurstöður vísindarannsókna.

Höfundur er læknir og doktor í lýðheilsuvísindum.




Skoðun

Sjá meira


×