Körfubolti

Ívar: Eigum heima í annarri deild ef við verðum verri í næsta leik

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka. Vísir/Bára
Haukar áttu afleitan leik í kvöld þegar þeir töpuðu 66-84 fyrir ÍR á heimavelli í Domino's deild karla. Ívar Ásgrímsson var vægast sagt ósáttur við frammistöðu sinna manna í kvöld.

„Það var engin glæta í þessum leik hjá okkur,“ sagði ósáttur þjálfari Hauka, Ívar Ásgrímsson, eftir leikinn í kvöld. ÍR vann fyrsta leikhlutann með 12 stigum og staðan í hálfleik var 36-43.

„Við vorum skelfilegir. Vorum með 13% þriggja stiga nýtingu en samt héldum við áfram að reyna erfið þriggja stiga skot.

„Ég skil ekki hvernig við töpuðum ekki með 50 stigum. Þegar fjórði leikhlutinn byrjaði vorum við 9 stigum undir og ég skildi ekki hvernig.“

Ívar vildi biðjast afsökunar á frammistöðu Hauka í kvöld.

„Við vorum svo lélegir og það vantaði alla baráttu í okkur og vilja. Það er ekki annað hægt en að biðja stuðningsmenn afsökunar á hugarfarinu okkar,“ sagði Ívar og hélt áfram.

„Við eigum allir slæmt skilið sem komu nálægt þessum leik. Við fórum vel yfir hvað ÍR gerir en fórum greinilega ekki nógu vel yfir hvað við gerum.“

Næsti leikur Hauka í deildinni er gegn bikarmeisturum Tndastóls norður á Sauðárkróki.

„Ef við verðum verri í næsta leik eigum við heima í annarri deildinni,“ sagði Ívar Ásgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×