Körfubolti

Framlengingin: Valsmenn aftar á merinni en menn áttu von á

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport
Í Framlengingunni í Domino's Körfuboltakvöldi takast sérfræðingar Kjartans Atla Kjartanssonar að takast á um heitustu málefni líðandi stundar í íslenska körfuboltanum.

Í þætti gærkvöldsins var staða Vals á meðal umræðuefna. Valsliðið hefur tapað fyrstu veimur leikjum sínum, fyrir Haukum og Val, báðum á heimavelli sínum.

„Mér finnst Valur miklu aftar á merinni en ég átti von á í upphafi tímabils,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson. „Eins og hefur komið fram þá veit maður afskaplega lítið um körfubolta og er bara að reyna að geta í eyðurnar.“

„Ég hef hins vegar trú á því að Gústi nái að púsla þessu einhvern veginn saman.“

Kristinn Geir Friðriksson var sammála Jóni. „Ég held að upphafsmistökin hafi verið að fá ekki stóran mann í Kananum. Ég hefði viljað hafa Ragga Nat sem back-up.“

Bandaríkjamennirnir Michael Craion og Julian Boyd mættust í stórleik Keflavíkur og KR í gærkvöld. Hvorn myndu sérfræðingarnir taka í sitt lið?

„Ég myndi taka Boyd. Ég er rosalega hrifinn af þessum gæja, hann er næsti Craion,“ sagði Kristinn.

„Þú ert að veðja á einhverja djöfulsins vitleysu eins og venjulega,“ sagði Jón Halldór þá. „Þú tekur alltaf leikmann sem þú veist hvað getur.“

Nýliðar Breiðabliks eru ekki með neinn evrópskan leikmann og virðast ætla að leyfa ungum strákum að spila ásamt því að þeir eru með Bandaríkjamannin Christian Covile.

„Mér finnst þetta ótrúlega falleg hugmyndafræði. Ég er hins vegar staddur þar að þegar þú ert að spila í meistaraflokki í efstu deild þá hlýtur þú að vera í þessu til þess að vinna,“ sagði Jón Halldór.

„Pétur er að gera þetta eftir sínu höfði og fær það. Ég myndi ekki taka neinn útlending eða annan erlendan leikmann inn í þetta. Ég myndi bara laga aðeins aðferðafræðina við það hvernig Pétur er að gera þetta,“ sagði Kristinn.

Þá ræddu sérfræðingarnir komu Lewis Clinch sem er á leið til Grindavíkur og skiptingu deildarinnar í topp og botnbaráttu.

Umræðuna alla má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Clinch búinn að semja við Grindavík

Lewis Clinch hefur samið við Grindavík um að spila með liðinu í Domino's deild karla samkvæmt heimildum íþróttadeildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×