Handbolti

Kiel hafði betur í Íslendingaslag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðjón Valur fagnar marki í leiknum í dag.
Guðjón Valur fagnar marki í leiknum í dag. Vísir/Getty
Kiel hafði betur gegn Rhein-Neckar Löwen á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag. Lokatölur urðu 27-24 og Alfreð Gíslason og lærisveinar hans sitja nú í þriðja sæti deildarinnar.

Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Peterson voru á sínum stað í liði Rhein-Neckar í dag og Gísli Þorgeir Kristjánsson var í leikmannahópnum hjá Kiel.

Leikurinn var jafn og heimamenn í Rhein-Neckar voru einu marki yfir í leikhléi, 12-11.

Í síðari hálfleik voru það hins vegar gestirnir sem tóku völdin. Þeir komust í 16-12 snemma í hálfleiknum og heimamenn náðu aldrei að jafna metin eftir það og fyrsti ósigur þeirra í deildinni staðreynd.

Guðjón Valur skoraði 5 mörk fyrir Rhein-Neckar í leiknum og var næst markahæstur á eftir þeim Jannick Kohlbacker og Andy Schmid sem skoruðu 6 mörk. Alexander Peterson skoraði 2 mörk.

Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað hjá Kiel en hann gekk til liðs við liðið í sumar frá uppeldisfélagi sínu FH.

Kiel er í 3.sæti deildarinnar með 14 stig eftir níu leiki en Rhein-Neckar er í 5.sæti með 13 stig en hefur leikið tveimur leikjum færra en Kiel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×