Erlent

Fyrrverandi Brexit-ráðherra hvetur til uppreisnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Davis sagði af sér í júlí vegna óánægju með hvernig May forsætisráðherra lagði upp viðræður við Evrópusambandið.
Davis sagði af sér í júlí vegna óánægju með hvernig May forsætisráðherra lagði upp viðræður við Evrópusambandið. Vísir/EPA
Ráðherrar í bresku ríkisstjórninni ættu að sýna samstöðu og gera uppreisn gegn Theresu May forsætisráðherra til að andæfa áætlun hennar um útgönguna úr Evrópusambandinu. Þetta segir David Davis, fyrrverandi Brexit-ráðherra, í ríkisstjórn May.

Miklar væringar hafa verið innan Íhaldsflokks May undanfarin misseri vegna Brexit. Fyrst og fremst takast félagar í flokknum um á hvaða forsendum eigi að semja við Evrópusambandið um hvernig samskiptunum verður hagað eftir útgöngu Breta í mars á næsta ári.

May lagði fram áætlun sína í sumar. Hún hefur meðal annars lagt til að Bretar verði tímabundið áfram í tollabandalagi Evrópu á meðan fundinn er lausn á hvernig landamærum við Írland verður háttað.

Davis sagði af sér í kjölfarið vegna ósættis við stefnu forsætisráðherrans og leiðtoga flokksins. Hann gagnrýnir samningatækni ríkisstjórnarinnar og segir hana haldna „grundvallargöllum“ í grein sem hann skrifar í Sunday Times í dag. Áætlun May sé „óásættanleg“.

„Þetta er ein stærsta ákvörðun sem ríkisstjórn hefur tekið á síðari tímum,“ skrifað Davis.

Fleiri áhrifamiklir félagar í Íhaldsflokknum eru sömuleiðis sagðir hafa áhyggjur af áætlun May, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Sumir harðlínumenn í flokknum hafa haldið því fram að Bretland ætti að ganga úr Evrópusambandinu án nokkurs samnings frekar en að leyfa sambandinu að setja þeim skilyrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×