Fótbolti

Væri stórt að vinna England

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sergio Ramos með félaga sínum í landsliðinu, Diego Costa.
Sergio Ramos með félaga sínum í landsliðinu, Diego Costa. Vísir/Getty
Sergio Ramos segir að það yrðu stórfréttir um allan heim ef Spánverjum tækist að leggja Englendinga að velli en liðin mætast í Þjóðadeildinni í Sevilla á morgun.

Liðin eru saman í riðli í A-deild og sitja Spánverjar á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir tvo leiki en Englendingar eru með eitt ásamt Króatíu eftir jafntefli þjóðanna á laugardaginn.

„Ég býst við fallegum en áköfum leik. Það er erfitt að stoppa Harry Kane og á Wembley þurftu varnarmenn okkar að leggja hart að sér til að gera það," sagði Ramos en England og Spánn mættust í vináttuleik á Wembley í byrjun september þar sem Spánverjar höfðu betur.

„Það eru að koma upp ungir leikmenn hjá Englandi sem eru hraðir og hættulegir og ég held að framtíðin sé björt hjá þeim, bætti Ramos við.

Í viðtali við Daily Mirror segir Ramos að það sé öðruvísi að mæta Englandi en öðrum þjóðum.

„Ég hef leikið marga leiki gegn enskum liðum og og enska landsliðinu og mér finnst þessir leikir alltaf öðruvísi en aðrir."

„Þegar maður leikur gegn þjóðinni sem fann upp fótboltann eru úrslit leiksins mikilvægari og maður sér það vel inni á vellinum. Að leika og vinna gegn Englandi eru stórar fréttir um allan heim og knattspyrnumenn eru alltaf þakklátir fyrir það," sagði Ramos að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×