Handbolti

Sigur hjá Elverum í Meistaradeildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigvaldi í leik með Árhús á síðustu leiktíð en nú leikur hann í Noregi.
Sigvaldi í leik með Árhús á síðustu leiktíð en nú leikur hann í Noregi. vísir/getty
Norska liðið Elverum, með þá Sigvalda Guðjónsson og Þráin Orra Jónsson innanborðs, vann í dag nauman sigur á finnska liðinu Riihimäen Cocks í D-riðli Meistaradeildarinnar í handknattleik.

Sigvaldi er á sínu fyrsta ári í Noregi en hann gekk til liðs við Elverum frá Århus í Danmörku fyrir tímabilið. Þráinn Orri kom frá Gróttu fyrir síðasta tímabil.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi. Elverum var einu marki yfir í hálfleik, 15-14, og þegar skammt lifði leiks var staðan jöfn 27-27.

Elverum skoraði hins vegar síðasta mark leiksins og tryggði sér eins marks sigur, lokatölur 28-27.

Sigvaldi skoraði fimm mörk úr átta skotum í dag en Þráinn Orri komst ekki á blað.

Þetta var þriðji sigur Elverum í riðlinum sem nú eru með sex stig eftir fimm umferðir, jafnmörg og Dinamo Búkarest og Wisla Plock sem hafa leikið einum leik minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×