Erlent

Opna landamærin í fyrsta sinn síðan 2015

Andri Eysteinsson skrifar
Tveir Sýrlendingar fylgjast hér með svæðinu nálægt Nasib í sumar.
Tveir Sýrlendingar fylgjast hér með svæðinu nálægt Nasib í sumar. EPA/ Ahmad Abbo
Landamærin milli Jórdaníu og Sýrlands verða opinberlega opnuð að nýju á morgun, mánudaginn 15. Október.

Landamærin hafa verið lokuð í þrjú ár. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá löndunum tveimur en Reuters greinir frá.

Tvær af aðallandamærastöðvum Sýrlands og Jórdaníu, Nasib og Daraa féllu báðar í hendur uppreisnarmanna. Daraa árið 2013 og Nasib tveimur árum síðar. Það er hin síðarnefnda sem nú verður opnuð að nýju.

Þegar Nasib stöðin lokaði árið 2015 lokaðist fyrir mikilvæg flutningsleið milli Persaflóa og Tyrklands annars vegar og Líbanon hins vegar. Mikilvægt er fyrir Líbanon að landamæri Sýrlands og Jórdaníu opni því Líbanon hefur bara ein önnur landamæri á landi.

Þau landamæri eru við Ísrael en ríkin eiga í engu ríkjasambandi. Sýrland hefur landamæri við fimm ríki, Líbanon, Jórdaníu, Írak, Tyrkland og Ísrael en síðustu ár hafa einu opnu landamæri Sýrlands verið við Líbanon. 

Sýrlandsstjórn náði yfirráðum á landamærasvæðinu í júlí eftir að rússneskar hersveitir ráku uppreisnarmenn frá svæðinu í suðvesturhluta Sýrlands.

Fulltrúar ríkjanna tveggja hittust í Jórdaníu í dag og lögðu lokahönd á samkomulagið um opnun landamæranna frá með morgundeginum.

Nael Husami hjá jórdanska iðnaðarráðuneytinu  sagði þó að ekki yrði opnað strax fyrir almenna umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×