Fótbolti

Koscielny ósáttur með Deschamps og er hættur með landsliðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Koscielny í leik með franska landsliðinu.
Koscielny í leik með franska landsliðinu. Vísir/Getty
Laurent Koscielny leikmaður Arsenal er hættur með franska landsliðinu. Hann segir að sigur Frakka á Heimsmeistaramótinu í sumar hafi verið erfiðari að takast á við andlega en meiðslin sem hann varð fyrir.

Koscielny missti af Heimsmeistaramótinu vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik með Arsenal og er ósáttur með Didier Deschamps þjálfara franska liðsins vegna skorts á samskiptum eftir mótið.

„Hann hringdi einu sinni í mig á afmælinu mínu í september, annars ekki. Ég varð fyrir vonbrigðum með marga, ekki bara þjálfarann. Mér líður eins og ég hafi verið sleginn utanundir," segir svekktur Koscielny.

„Þegar þú ert að spila vel áttu marga vini. Þegar þú lendir í meiðslum gleymist þú fljótlega. Sigur Frakklands í Rússlandi var erfiðari fyrir mig andlega heldur en meiðslin sjálf."

Varnarmaðurinn reyndi hefur leikið 51 landsleik á ferlinum og skorað í þeim eitt mark.

„Ég held ég hafi gefið allt sem ég get til Frakklands. Ég er 33 ára, ég hef leikið á tveimur Evrópumótum og einu Heimsmeistaramóti. Það er að koma upp frábær kynslóð hjá Frakklandi núna og meiðslin hafa ekki áhrif á ákvörðunina. Ég er hættur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×