Skoðun

EES martröðin

Kristófer Alex Guðmundsson skrifar
Evrópusinnaðir flokkar fengu útreið í Alþingiskosningunum árið 2017. Sömu flokkar fengu að vísu meðbyr árið 2016, en meðal sigurvegara ári síðar voru þeir flokkar sem aðhyllast frekar íhaldssemi og þjóðernishyggju, í stað frjálslyndis og alþjóðasamstarfs. Þess vegna þykir ekki óeðlilegt að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leiti ekki til nágrannaþjóða til samstarfs heldur haldi í stöðu íslenskrar einangrunarhyggju. Slík var niðurstaða kosninga og ber að virða. 

Nú þegar Evrópusambandsaðild hefur verið komið fyrir aftast á dagskrá kunna einangrunarsinnar að færa víglínuna yfir á næsta frelsissamstarfið, Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ekki hefur þótt mikið vit í því að ráðast á EES þegar kjósa átti um aðild að ESB, en nú þegar ríkisstjórnin sýnir málaflokknum dræman áhuga taka lýðskrumarar á skrið. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, segir að nú komi til greina að segja ESS-samningnum upp. Hann vill að neytendur fái ekki frelsið til að velja hvaða mat þeir borða, þess vegna sé rökrétt skref að tortíma markaðinum okkar úr 500 milljónum í 350 þúsund manns.

Áhrif EES á íslenskt samfélag hafa verið það jákvæð, að fáum hugnast það að snúa til baka, og mörgum kann að þykja samstarfið sjálfsagt. Niðurstaða þeirra kosninga, sem færðu okkur Trump og Brexit, kenna okkur þó að ekkert sé sjálfsagt og hinar brengluðustu fyrirætlanir geta orðið að veruleika ef frjálslynt fólk sinnir ekki aðhaldi mikilvægra kerfa og samstarfa í þágu almannahagsmuna. Höfundur óttast að einn daginn gæti Ísland orðið utan Evrópska efnahagssvæðisins. Látum þá martröð ekki rætast.

Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×