Sport

Íslendingar eiga titil að verja á EM í hópfimleikum sem hefst á morgun

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Lissabon skrifar
Íslenski hópurinn við brottför frá Keflavík í gær
Íslenski hópurinn við brottför frá Keflavík í gær mynd/kristinn arason
Íslensku landsliðin í hópfimleikum eru komin til Portúgal þar sem Evrópumótið í hópfimleikum fer fram. Ísland á einn Evrópumeistaratitil að verja en öll fjögur lið Íslands unnu til verðlauna á síðasta móti.

Íslenska kvennaliðið varð Evrópumeistari tvö ár í röð, 2010 og 2012. Þær náðu hins vegar ekki að verja titilinn á heimavelli 2014 þar sem þær fengu silfur líkt og í Slóveníu í fyrir tveimur árum.

Stúlknaliðið varð hins vegar Evrópumeistari árið 2016 og á því titil að verja á mótinu í ár sem fer fram í Odivelas, úthverfi Lissabon.

Blönduðu liðin unnu bæði til bronsverðlauna á síðasta móti, bæði í fullorðins- og unglingaflokki.

Keppni í mótinu hefst á morgun, miðvikudag, þegar unglingaliðin hefja leik. Daginn eftir fara fram undanúrslit liða í fullorðinsflokki og úrslitin eru á föstudag og laugardag, þar sem lið Íslands munu vonandi öll berjast um verðlaun.

51 lið tekur þátt í mótinu og koma þau frá 16 þátttökuþjóðum.

Vísir fylgir landsliðunum eftir í Lissabon og mun fylgjast grannt með gangi mála á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×