Fótbolti

Hamrén: Þoli ekki að tapa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hamrén labbar svekktur af velli í kvöld.
Hamrén labbar svekktur af velli í kvöld. vísir/vilhelm
Þjálfari íslenska landsliðsins, Erik Hamrén, var svekktur í leikslok er Ísland tapaði 2-1 fyrir Sviss í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég er svekktur og einnig fyrir hönd leikmannanna sem lögðu svona mikið á sig. Við sköpuðum mörg færi en þetta gekk ekki," sagði Svíinn Hamrén í leikslok.

„Við byrjuðum leikinn ekki vel fyrstu tíu mínúturnar en eftir það spiluðum við vel í fyrri hálfleik. Fyrsta markið skiptir miklu máli og það sáum við einnig í Frakklandi."

„Til að mynda ef Gylfi hefði skorað í fyrri hálfleik þá hefðum við fengið meiri kraft en þess í stað þá skora þeir í síðari hálfleiknum."

„Við reyndum að koma til baka og fengum gott tækifæri en svo komast þeir í 2-0. Þá var þetta orðið erfitt en eftir markið stórkostlega frá Alfreð þá fengum við orku á ný. Það er erfitt að skapa fleiri færi en við gerðum síðustu tíu mínúturnar."

Ísland lék vel í fyrri hálfleik en í upphafi síðari hálfleiks var smá losara bragur á liðinu. Erik segir að fyrsta markið hafi skipt miklu.

„Fyrsta markið var mjög mikilvægt. Við fengum tækifæri til að jafna 1-1 rétt áður en þeir komast í 2-0 en eftir það þá vorum við í vandræðum en gáfumst ekki upp. Við reyndum og við áttum skilið eitt stig."

Þrátt fyrir tvö töp í síðustu tveimur leikjum hefur frammistaðan verið afar góð og segir Svíinn að það muni hjálpa til auðvitað en að hann sé í þessu til að vinna fótboltaleiki.

„Já, en ég þoli ekki að tapa og ekki leikmennirnir heldur. Við töpuðum en við notum þetta í undirbúning fyrir undankeppni EM sem hefst í mars. Við tökum það góða því við verðum að muna að við vorum að spila gegn mjög sterkum liðum."

„Sviss er með mjög sterkt lið. Ég held að við höfum skapað fleiri færi gegn þeim en Belgía gerði og það er gott en þetta svíður þegar þú færð ekkert út úr leiknum," sagði Hamrén.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×