Skoðun

Eru konur rusl?

Einar Freyr Bergsson skrifar
Framþróun femínisma er eitthvað sem ég hef stutt heilshugar undanfarin ár og mun gera svo lengi er ég lifi. Ég tel það óásættanlegt með öllu að konur búi við þá mismunun sem viðgengst. Þrátt fyrir jákvæða þróun, þá erum við enn á steinaldarstigi hvað varðar jafnrétti kynjanna, það er óviðunandi með öllu.

En fréttin í DV í gær „Auðvitað eru allir karlar samsekir“ finnst mér lágkúruleg framsetning og særandi. Hvað varðar umrætt tattú, þá er það réttur viðkomandi einstaklings að skreyta sig með þessum hætti og gera innihaldið að skilaboðum sem viðkomandi finnst viðeigandi. Ég sé ekkert athugavert við það.

Mér þykir það verra ef hópur kvenna sem talar fyrir femínisma felli þann palladóm að allir karlar sé samsekir. Mætti þá ekki samkvæmt svona grunnhygginni framsetningu segja að allar konur séu samsekar um að viðhalda valdajafnvæginu sem gæti breytt þessu með því að kjósa karla þar sem þær gætu kosið konur til áhrifa.

Ég á móður, ömmu og langömmu sem hafa búið við þá mismunun sem femínisminn hefur sagt stríði á hendur og sárnar mér fyrir þeirra hönd. Ég get lítið gert í að bæta það sem gerst hefur í fortíðinni, en ég get og mun leggja mikið á mig að stuðla að betra lífi fyrir systur mína og dætur mínar, eignist ég þær síðar meir. Ég get illa sætt mig við það að framtíðin beri ekki í sér betri tíma fyrir konur framtíðarinnar.

En ég get ekki fallist á það að ég sem er nýkominn á fullorðinsár sé settur á sama stall og einstaklingar sem sýna af sér kvennfyrirlitningu og ofbeldi gagnvart konum. Foreldrar mínir, afar og ömmur hafa ávallt kennt mér að sýna öðrum aðilum virðingu og sérstaklega hafa þau bent mér á mikilvægi þess að stuðla að jafnrétti kynjanna og mun ég því leggja enn harðar að mér í að styðja þann málstað.

Því hafna ég með öllu að ég sé samsekur þeim sem sýna af sér skítlegt eðli í garð kvenna. Ég samþykki það ekki, enda skil ég ekki þá hugsun sem liggur hér að baki og á frekar erfitt með að skilja hvernig hún hjálpar umræðunni.




Skoðun

Sjá meira


×