Innlent

Meintur skútuþjófur í fjögurra vikna farbann

Birgir Olgeirsson skrifar
Skútan Inook við bryggju á Snæfellsnesi.
Skútan Inook við bryggju á Snæfellsnesi. Vísir
Maðurinn sem grunaður er um að hafa stolið skútu í Ísafjarðarhöfn hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna farbann. Greint er frá þessu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum en maðurinn var leiddur fyrir dómara fyrr í kvöld sem féllst á kröfu lögreglustjórans. Gildir farbannið til 12. nóvember.

Greint var frá því á Vísi fyrr í dag að maðurinn sem er grunaður um að hafa stolið skútunni Inook á Ísafirði í gær sé erlendur. Þá þykir ljóst að hann hefur þekkingu á siglingum þar sem hann kom skútunni úr höfn og sigldi henni út á Breiðafjörð.

Hafnarstjóri Ísafjarðarhafnar sagði við Vísi að maðurinn hefði þurft að hafa mikið fyrir því að stela einmitt þessari skútu því hún var bundin innan um aðra báta.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fann skútuna úr lofti í gærkvöldi. Bátnum var snúið við og honum siglt til Rifs á Snæfellsnesi þar sem lögreglan á Vesturlandi tók á móti henni. Skipstjórinn var handtekinn og er grunaður um að hafa tekið skútuna ófrjálsri hendi.


Tengdar fréttir

Skútan komin til hafnar í Rifi

Skipstjóri skútunnar var handtekinn í Rifi en ekki liggur fyrir hvort hann hafi verið einn um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×