Erlent

Saklaus í steininum síðan 1999

Andri Eysteinsson skrifar
Horace hér á leið sinni til heimahagana, frjáls.
Horace hér á leið sinni til heimahagana, frjáls. AP/California Innocence Project
Sextugum Bandaríkjamanni, Horace Roberts, var í byrjun mánaðarins sleppt úr fangelsi eftir að hafa dvalið þar, saklaus síðan árið 1999. Ný DNA próf leiddu til handtöku tveggja manna. AP greinir frá.

Roberts var sakfelldur fyrir morðið á kærustu sinni, Terry Cheek, í Riverside í Kalíforníu. Cheek hafði verið kyrkt og líki hennar komið fyrir í stöðuvatni.

Roberts hafði notið aðstoðar hjálparsamtakanna California Innocence Project sem aðstoðar fanga sem telja sig sitja inni vegna glæpa sem þeir frömdu ekki. Samtökin hófu að hjálpa Roberts árið 2003 og nú loks hefur honum verið veitt frelsi að nýju.

Rannsókn á erfðaefni sem fannst við rannsókn málsins þótti sýna fram á sakleysi Roberts og leiddi til handtöku á eiginmanni Cheek, Googie Harris og frænda hans Joaquin Leal.

Talsmaður California Innocence Project segir að eiginmaður Cheek, Harris, hafi myrt Terry Cheek sem átti í framhjáhaldi og seinna komið viðhaldinu í ævilangt fangelsi.

Í myndbandi sem California Innocence Project birti á youtube, sést Roberts henda fangelsisfötum sínum í ruslið, njóta Pepsi flösku og áður en hann flaug heim til Suður-Karólínu lýsti hann því yfir að það sem hann saknaði mest var frelsið sjálft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×