Erlent

Segir að málað hafi verið á ræðisskrifstofu Sáda

Kjartan Kjartansson skrifar
Orð Tyrklandsforseta benda til þess að reynt hafi verið að fela verksummerki á ræðisskrifstofunni þar sem Khashoggi á að hafa verið myrtur.
Orð Tyrklandsforseta benda til þess að reynt hafi verið að fela verksummerki á ræðisskrifstofunni þar sem Khashoggi á að hafa verið myrtur. Vísir/EPA
Recep Erdogan, forseti Tyrklands, segir að merki séu um að málað hafi verið yfir hluti á ræðismannskrifstofu Sádí-Arabíu í Istanbúl þar sem talið er að Jamal Khashoggi, blaða- og andófsmaður, hafi verið myrtur fyrir tveimur vikum. Tyrkneska lögreglan fékk loks að fara inn á skrifstofuna í gær.

Síðast spurðist til Khashoggi þegar hann fór inn á ræðismannsskrifstofuna. Tyrknesk stjórnvöld hafa sagst hafa upptöku sem bendi til þess að hann hafi verið pyntaður og myrtur þar. Lík hans hafi jafnvel verið bútað niður í flutt af skrifstofunni.

Sádar hafa þvertekið fyrir það en nýjustu fregnir herma að þeir undirbúi nú skýrslu þar sem komi fram að Khashoggi hafi látist við yfirheyrslu. Ætlunin hafi verið að taka hann höndum og flytja til Sádí-Arabíu.

Erdogan segist vonast til þess að niðurstöður rannsóknarinnar á ræðismannsskrifstofunni liggi fyrir sem fyrst. Rannsóknin beinist meðal annars að eiturefnum og hlutum sem hafi verið látnir hverfa með því að mála yfir þá, að því er segir í frétt Reuters.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundar með konungi Sádí-Arabíu vegna hvarfs Khashoggi í dag. Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við konunginn í síma í gær og sagði eftir símtalið að konungurinn hefði neitað því algerlega að Sádar hefðu komið nálægt því. Ýjaði Trump að því að einhvers konar stigamenn hefðu getað ráðið Khashoggi bana.

Khashoggi var í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum þar sem hann var með dvalarleyfi. Þar skrifaði hann pistla fyrir Washington Post þar sem hann lýsti gagnrýni á stefnu stjórnvalda í Sádí-Arabíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×