Innlent

Börn Vigdísar Hauksdóttur draga hana fyrir dómstóla

Jakob Bjarnar skrifar
Vigdís Hauksdóttir segir að málið eigi ekki erindi við almenning.
Vigdís Hauksdóttir segir að málið eigi ekki erindi við almenning. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Börn Vigdísar Hauksdóttur, fulltrúa Miðflokksins í borginni, hafa stefnt móður sinni fyrir dómstóla. Eftir því sem næst verður komist snýst málið um arf en faðir barnanna, fyrrum maki Vigdísar, lést árið 2010.

Þetta kemur fram í Stundinni en í samtali við Vísi sagði Vigdís að fyrir lægi samkomulag milli lögmanna deiluaðila um að hvorugur málsaðilinn myndi tjá sig opinberlega. Að um sé að ræða persónulegt mál og það eigi ekki erindi við almenning.

Vígdís sagði, þegar hún var innt eftir því hvort málaferli kjörinna fulltrúa hljóti ekki að heyra til þess sem á „erindi við almenning“, hvað svo sem það nú þýðir, ítrekaði hún að þetta væri einkamál.

„Fyrir liggur samkomulag þessa efnis og ég vil ekki brjóta það. Það verða allir að hafa skilning á því,“ segir Vigdís. Þá sagði Vigdís aðspurð að hún myndi ekki verja sig sjálf þó lögfræðingur sé, hún er ekki komin með málflutningsréttindi en lögmaður hennar er Guðmundur Ágústsson héraðsdómslögmaður.

Börn Vigdísar, þau Hlynur og Sólveig, eru komin á fullorðinsaldur. Fram kemur í Stundinni að fyrirtaka í málinu hafi verið í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en ekki liggi fyrir hvenær aðalmeðferð fari fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×