Skoðun

Skerðing vinnuvikunnar

Guðmundur Edgarsson skrifar
Það er gott að vera góðmenni á kostnað annarra. Ályktun flokksráðs Vinstri grænna á dögunum þess efnis að vinnuvikan verði stytt í 30 stundir er til merkis um slíkt góðmennskukast. Vitnað er í könnun á vegum Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að stytting vinnuvikunnar þar á bæ hafi heppnast sérdeilis vel. Samkvæmt könnuninni hafi lífsgæði starfsmanna aukist, framleiðni batnað og veikindadögum fækkað. Því sé ekki eftir neinu að bíða: hin vísindalega könnun sveitarfélagsins sýni að því færri stundir sem menn vinni, því meiri verði afköstin og fólki líði betur.

En gæðablóðin í Vinstri grænum átta sig ekki á einu grundvallar­atriði: könnunin er með öllu ómarktæk. Þjónusta á vegum sveitarfélaga er ekki í neinum eðlilegum tengslum við markaðinn. Hún er lögboðin og því engin samkeppni. Kúnninn hefur ekkert val, hann er látinn borga hvort sem hann nýtir sér hana eða ekki. Þá eru mörg verkefni á vegum stórs sveitarfélags eins og Reykjavíkur þess eðlis að fólk ber ekki skynbragð á hvort þau eru gagnleg, hagkvæm eða tilgangslaus gæluverkefni. Enginn ber ábyrgð á kostnaði sem iðulega fer fram úr áætlunum eins og nýlegur braggablús sýnir.

Markaðurinn á að ráða

Væri mark takandi á könnuninni myndi markaðurinn bregðast skjótt við. Vinnuveitendur myndu hafa frumkvæði að því að stytta vinnuvikuna enda kappkosta fyrirtæki í samkeppnisumhverfi að auka hagkvæmni og afköst. En atvinnulífið veit sem er að könnun þessi er byggð á sandi. Ekkert vitrænt hefur komið fram sem bendir til þess að 40 stunda vinnuvika sé fólki ofviða enda hefur verið miðað við þá tölu allt frá því að Henry Ford kom henni á í bílaverksmiðjum sínum árið 1914.

Aðalatriðið er þó það að opinberir aðilar eins og ríki og sveitarfélög eiga ekki að leiða breytingar í þessa veru. Aðeins markaðurinn á að hafa frumkvæði þar um enda stendur atvinnulífið undir launakostnaði allra opinberra starfsmanna. Þaðan koma jú skattarnir.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×