Viðskipti innlent

Attestor selur og Eaton Vance kaupir í Arion

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Attestor hefur selt hátt í 4 prósenta hlut frá því í vor.
Attestor hefur selt hátt í 4 prósenta hlut frá því í vor. Fréttablaðið/Eyþór
Breski vogunarsjóðurinn Att­estor Capital seldi um 0,3 prósenta eignarhlut í Arion banka í síðasta mánuði og fór í lok mánaðarins með 8,58 prósenta hlut í bankanum. Sjóðurinn hefur selt hátt í 0,9 prósent af hlutafé bankans eftir að bankinn var skráður á hlutabréfamarkað í júní. Attestor Cap­ital hefur haldið áfram að minnka hlut sinn það sem af er þessum mánuði, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Sjóðir á vegum bandaríska eigna­stýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management juku lítillega við hlut sinn í Arion banka í september og áttu í lok mánaðarins samanlagt 1,78 prósenta hlut, samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa bankans. Til samanburðar nam samanlagður hlutur sjóðanna 1,64 prósentum í lok ágúst og um 1,2 prósentum í kjölfar skráningar bankans.

Attestor Capital hefur unnið markvisst að því að minnka hlut sinn í bankanum á undanförnum mánuðum en vogunarsjóðurinn hefur selt hátt í 3,9 prósent af hlutafé bankans frá því í vor.

Hlutabréfaverð Arion banka nam 81,2 krónum á hlut við lokun markaða í gær og var um 8,3 prósentum hærra en í útboði bankans þegar Kaupþing og Attestor seldu um 29 prósenta hlut á genginu 75 fyrir samtals um 39 milljarða króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×