Handbolti

Patrekur: Mikil auglýsing fyrir bæjarfélagið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga, segir að liðið fari inn í einvígið gegn KS Azoty-Pulawy í EHF-bikarnum til þess að vinna.

Selfoss dróst gegn liðinu er dregið var í þriðju umferðina í morgun en sigurvegarinn úr þessu einvígi fer í riðlakeppni EHF-bikarsins.

„Við hefðum getað fengið sterkari lið. Mér líst vel á þetta. Við slógum út Slóvenana og ætlum í þetta verkefni til þess að slá þá út," sagði Patrekur í samtali við Guðjón Guðmundsson.

„Þó að verkefnið sé krefjandi þá ferðu í það til að vinna," en þrátt fyrir að verkefnið sé spennandi segir Patrekur að þetta sé afar kostnaðarsamt:

„Þegar að við ákváðum að fara í Evrópukeppnina þá var rætt við leikmennina. Hver umferð er um þrjár milljónir og við gerum okkur grein fyrir því að þetta er hörkupakki."

„Ég trúi ekki öðru að bæjarfélagið á Selfossi styrki þetta. Ég veit að Garðabær styrkir upp á 50-60 milljónir svo að ég trúi að allir leggist á eitt."

„Þetta er mikil auglýsing fyrir bæjarfélagið. Við þurfum alla hjálp og ég hef ekki trú á öðru."

Innslagið má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×