Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Snæfell 53-62 | Snæfell taplaust á toppnum

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Kristen átti stórleik í kvöld eins og svo oft áður.
Kristen átti stórleik í kvöld eins og svo oft áður. vísir/ernir
Stjarnan og Snæfell mættust í kvöld í sannkölluðum toppslag í Mathús Garðabæjarhöllinni í 3.umferð Dominos deildar kvenna en bæði lið höfðu unnið fyrstu 2 leikina sína.

Stjarnan byrjaði töluvert betur í leiknum og spilaði sterkan varnarleik og fengu ekki á sig nema 11 stig í 1.leikhluta.

Stjarnan hélt áfram að leiða með 8-10 stigum í 2.leikhluta þar til í lok fyrri hálfleiks þegar Snæfell náði að minnka muninn niður í 4 stig en Stjarnan leiddi þó í hálfleik, 29-25. Lítið skorað í Garðabænum.

Það var svo einhvern veginn allt annað Snæfellslið sem mætti til leiks í síðari hálfleikinn en þær létu miklu meira finna fyrir sér og þjálfari Stjörnunnar, Pétur Már Sigurðsson tók fljótt leikhlé og lét sínar stelpur heyra það.

Eftir það var leikurinn mjög jafn en Snæfell náði samt ekki að jafna leikinn fyrr en undir lok 3.leikhluta og þær leiddu þegar honum var lokið, 40-41 og stefni í rosalegan endi.

4.leikhluti byrjaði eins og 3.leikhluti endaði og var mjög jafnt í byrjun, liðin skiptust á að vera yfir. Stjarnan komst 3 stigum yfir, 53-50 þegar rétt rúmlega 3 mínútur voru eftir. Þá lokuðu Snæfell fyrir körfuna og skoruðu 12 stig á móti engu frá Stjörnunni og unnu að lokum frábæran sigur 62-53. Varnarleikurinn í aðalhlutverki.

Af hverju vann Snæfell?

Reynsla og barátta undir lokin. Snæfell var undir meirihluta leiksins en þær gáfust aldrei upp og spiluðu frábæra vörn undir lok leiksins. Góður karakter hjá Snæfelli að taka lokamínúturnar 12-0 og skila þessum 2 stigum í hús.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða meirihluta leiksins. Bæði lið voru að skjóta nokkuð illa en Stjarnan var meðal annars með 25% hittni en Snæfell aðeins betri með 32% hittni. Stjarnan tapaði að auki 18 boltum.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði Snæfells var Angelika Kowalska stigahæst með 15 stig en hún var mjög öflug undir lokin, hún bætti við 8 fráköstum og 5 stoðsendingum. Kristen McCarthy hitti illa í dag en náði þó 14 stigum og 11 fráköstum.

Í liði Stjörnunnar var Danielle Victoria Rodriguez öflug að vanda en hún átti þó í vandræðum með skotin. Hún endaði með 20 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar. Ragnheiður Benónísdóttir átti síðan öflugan leik undir körfunni en hún reif niður 11 fráköst.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer í heimsókn á Borgarnes og mætir Skallagrím á meðan Snæfell reyna haldast taplausar þegar þær fara í heimsókn í DHL-höllina og mæta nýliðum KR.

Pétur Már: Eins og við höndlum ekki mótlæti

Pétur Már Sigurðsson þjálfari Stjörnunnar var mjög svekktur í leikslok eftir slæmt tap á heimavelli gegn Snæfell í kvöld.

„Mjög svekktur, þetta var týpískur Snæfellsleikur. Þær eru drulluharðar og unnu slaginn í dag, þær voru að taka lausa bolta sérstaklega í seinni hálfleik og það er eins og mínir leikmenn höndli ekki alveg mótlætið.”

„Snæfell eru frægar fyrir að vera drulluharðar og góðar en þá breytumst við í minni menn og það gengur bara ekki upp. Þá verða allar aðgerðir hikandi og við hendum þessu frá okkur."

„Við erum 5 stigum eftir þegar 3 mínútur eru eftir og við náum ekki upp skotum og fáum á okkur fullt af lay-upum í 4.leikhluta á hálfum velli sem er ekki boðlegt og við hittum ekkert.”

Hann var mjög ánægður með byrjun liðsins en fannst sumar ákvarðanir dómaranna og línan hjá þeim sérstaklega furðuleg í kvöld.

„Við byrjum vel og spilum hörkuvörn en mér finnst dómararnir í kvöld leyfa fullmikið. Það er laus bolti og leikmaður búinn að ná boltanum þá má ekki annar leikmaður hoppa ofan á leikmanninn.”

„Stundum var línan ótrúlega skrítin og mér fannst leikurinn ekki vel dæmdur en það skiptir ekki máli, við þurfum að gera miklu betur. Við eigum góða spretti en þeir eru alltof stuttir. En það eru 3 leikir búnir og 25 eftir.”

„Geggjuð stemning í kvöld og við erum að reyna búa til kúltúr hérna og sigurhefð, það er rosalega gott andrúmsloft hérna,” sagði Pétur Már að lokum þegar hann var spurður út í stemninguna og mætinguna í Garðabæ en það var vel mætt.

Baldur Þorleifsson: Sérstaklega ánægður með varnarleikinn

Baldur Þorleifsson þjálfari Snæfells var gífurlega ánægður með varnarleikinn og sigurinn í Garðabæ í kvöld.

„Sérstaklega ánægður með varnarleikinn, hann gekk alveg upp hjá okkur. Aðaláherslan var á 2 pósta hjá þeim og það gekk vel upp en sóknarleikurinn var hrikalega stirður.”

„Það vantaði flæði í sóknarleikinn, leikmenn ætluðu 1 á móti 5 í stað þess að leyfa boltanum að ganga í sókninni eins og við erum búin að vera æfa."

„Við fórum að gera það í seinni hálfleik og þá sáum við hvernig við sigum fram úr þeim í lokin. Þetta er 5 manna leikur,” sagði Baldur varðandi vandræðin á liðinu í byrjun leiks en liðið skoraði einungis 11 stig í 1.leikhluta.

Hann var svo mjög ánægður hvernig liðið endaði leikinn en þær tóku 12-0 kafla sem kláraði leikinn.

„Það var allt vörninni að þakka ekki sóknarleiknum, við gjörsamlega lokuðum og pökkuðum alveg inn í teig og þær komu ekki að skoti,” sagði Baldur Þorleifsson þjálfari Snæfells.

Stjarnan-Snæfell 53-62 (20-11, 9-14, 11-16, 13-21

Stjarnan: Danielle Victoria Rodriguez 20/13 fráköst/7 stoðsendingar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 8/7 fráköst/4 varin skot, Bríet Sif Hinriksdóttir 7/6 fráköst, Alexandra Eva Sverrisdóttir 6/7 fráköst, Maria Florencia Palacios 5, Ragnheiður Benónísdóttir 4/11 fráköst, Sólrún Sæmundsdóttir 3, Jenný Harðardóttir 0/4 fráköst, Aldís Erna Pálsdóttir 0, Valdís Ósk Óladóttir 0, Vigdís María Þórhallsdóttir 0, Sunna Margrét Eyjólfsdóttir 0.

Snæfell: Angelika Kowalska 15/8 fráköst/5 stoðsendingar, Kristen Denise McCarthy 14/11 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 13/6 fráköst, Katarina Matijevic 9/4 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8/11 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 3, Heiða Hlín Björnsdóttir 0, Thelma Hinriksdóttir 0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0, Tinna Alexandersdóttir 0.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira