Sport

„Andrúmsloftið er rafmagnað og það er mjög góður andi“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Lissabon skrifar
Andrea Sif Pétursdóttir er fyrirliði íslenska kvennaliðsins
Andrea Sif Pétursdóttir er fyrirliði íslenska kvennaliðsins mynd/kristinn arason
Fyrirliði íslenska kvennaliðsins í hópfimleikum sagði liðið vera með mjög sterkar æfingar og keppni um Evrópumeistaratitilinn verði mjög spennandi. Lokaæfing liðsins áður en keppni á EM hefst gekk að mestu leiti vel.

„Það voru nokkrir hnökrar, við erum að finna okkur á nýjum áhöldum, en við fýluðum þau vel,“ sagði Andrea Sif Pétursdóttir, fyrirliði liðsins, eftir æfingu liðsins í keppnishöllinni í gær.

Íslenska liðið varð Evrópumeistari tvisvar í röð árin 2010 og 2012. Þær þurftu hins vegar að láta sér silfrið nægja á síðustu tveimur mótum.

Andrea segir liðið vera í baráttuhug og ætli sér að taka gullið aftur með heim til Íslands.

„Við reynum að hugsa bara um sjálfa okkur, þá gengur alltaf best. Við erum með okkar punkta og þetta á að ganga rosalega vel.“

„Við erum með mjög sterkar umferðir, sérstaklega á dýnu, þannig að þetta verður mjög spennandi,“ sagði Andrea.

„Stemmingin er mjög góð, og sérstaklega inni í salnum. Andrúmsloftið er mjög rafmagnað og við fáum kraft frá áhorfendum og notum hvor aðra, það er mjög góður andi.“

Undanúrslit kvennaliða fara fram í dag. Keppni hefst klukkan 16:30 að íslenskum tíma og verður bein textalýsing frá mótinu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×