Viðskipti innlent

Innnes hækkar verð vegna gengisþróunar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Heildsalan Innnes er umsvifamikil.
Heildsalan Innnes er umsvifamikil. Fréttablaðið/Pjetur
Gengisveiking íslensku krónunnar og kostnaðarhækkanir hafa brotist fram í verðlagningu íslenskra heildverslana. Innnes, sem er ein af stærstu matvöruheildverslunum landsins, sendi tilkynningu þess efnis til viðskiptavina sinna í síðustu viku.

Um er að ræða fjögurra prósenta hækkun á vörum sem eru keyptar til landsins í evrum, fimm prósenta hækkun á vörum sem keyptar eru í pundum og sex prósenta hækkun í Bandaríkjadölum. Breytingin tekur gildi á föstudaginn í næstu viku.

„Verðbreytingin er komin til vegna veikingar krónunnar annars vegar, og hækkana á launum og iðgjöldum hins vegar,“ segir Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, í samtali við Markaðinn. Hann tekur fram að meginástæðan sé veiking krónunnar. Fyrirtækið hafi ákveðið að bregðast ekki við nýju kjarasamningunum í vor með verðhækkunum heldur bíða og sjá.

„Við höfum reynt að sýna stöðugleika og breytum sjaldan verðum þó svo að krónan flökti innan vikmarka en veikingin hefur verið mikil á skömmum tíma. Ef við horfum á evruna þá hefur hún styrkst gagnvart krónunni um 25 prósent á rúmu ári.“

Magnús Óli segir óvíst hversu lengi verðið muni standa óhreyft eftir hækkunina.

„Ég er búinn að starfa í innflutningi í 35 ár og á þeim tíma hefur verðlagning í greininni alla jafna fært sig eftir því hvernig gengið þróast. Ef fram heldur sem horfir get ég ekki séð betur en svo að líklega sé önnur hækkun í kortunum.“ – tfh


Tengdar fréttir

Krónan ekki veikari í meira en tvö ár

Hagfræðingar segja tíðindi af vinnumarkaði vega þungt í gengisveikingu krónunnar síðustu daga. Forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands segir að ótti sé um að kjarasamningar fari úr böndunum í vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×