Erlent

Frumkvöðull á sviði kvennaknattspyrnu í Mexíkó myrtur

Atli Ísleifsson skrifar
Marbella Ibarra með frænku sinni, Fabiola Ibarra.
Marbella Ibarra með frænku sinni, Fabiola Ibarra. Mynd/Twitter
Einn helsti hvatamaður mexíkóskrar kvennaspyrnu, Marbella Ibarra, fannst látin á mánudag. Lögregla telur að hún hafi sætt pyndingum áður en hún var myrt. Hin 44 ára Ibarra var stofnandi fyrsta atvinnumannaliðsins fyrir konur í Maxíkó, Xolas de Tijuana.

BBC  greinir frá því að lík hennar hafi verið vafið plasti og fundist í strandbænum Rosarito, suður af Tijuana.

Tilkynnt var um hvarf Ibarra í síðasta mánuði og taldi fjölskylda hennar víst að henni hafi verið rænt. Ekki liggur fyrir um ástæður morðsins, en lögregla telur ólíklegt að það tengist störfum hennar innan knattspyrnunnar.

Talið er að hún hafi verið myrt á föstudag, en lík hennar fannst á mánudag.

Síðustu misserin hafði Ibarra unnið fyrir velgjörðarfélag sem aðstoðaði ungar knattspyrnukonur fjárhagslega þannig að þær geti ­farið á reynslu til stærri félaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×