Umfjöllun: KR - Þór Þ. 86-85 | Meistararnir mörðu Þór

Böðvar Sigurbjörnsson skrifar
Baráttan í kvöld.
Baráttan í kvöld. vísir/bára
Íslandsmeistarar KR tóku í kvöld á móti Þór frá Þorlákshöfn í þriðju umferð Dominosdeildar karla í körfubolta á heimavelli sínum í DHL höllinni.

Fyrir leikinn í kvöld höfðu KR-ingar unnið einn leik og tapað einum en gestirnir frá Þorlákshöfn tapað báðum fyrstu leikjum sínum í deildinni.

Þegar litið er á aðra tölfræðiþætti liðanna fyrir leik kvöldsins hefði kannski mátt búast við þægilegum sigri KR, annað átti eftir að koma á daginn.

Lið KR hafði skorað næst mest í deildinni í fyrstu tveimur umferðunum eða 94 stig að meðaltali í leik, á meðan Þórsarar höfðu skorað minnst allra eða aðeins 74 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjunum.

Þá var einnig ljóst að ef gestirnir ættu að eiga möguleika á sigri í kvöld þyrftu þeir að finna leiðir til að stöðva Julian Boyd í liði KR en hann hafði farið hamförum í stigaskori í fyrstu tveimur leikjum KR, skorað samtals 68 stig í leikjunum tveimur.

Leikurinn í kvöld fór fjörlega af stað og voru það gestirnir frá Þorlákshöfn sem voru sterkari aðilinn til að byrja með, komust í 10-2. Þá tóku KR-ingar leikhlé sem greinilega var notað til að komast að þeirri niðurstöðu að nú væri ráðlegt að byrja leikinn. 

Emil Karel með boltann í kvöld.vísir/bára
Eftir það náðu heimamenn ágætum tökum á leiknum en tókst aldrei að hrista gestina af sér sem voru ávallt skammt undan. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn aðeins 3 stig heimamönnum í vil, 48-45. Það var meira af því sama í seinni hálfleik.

Liðin skiptust á því að skora og var munurinn aldrei meiri en 2 til 5 stig en þó ávallt heimamenn í KR skrefi á undan. Fjórði og síðasti leikhlutinn bauð upp á mikla spennu og dramatík.

Eftir mikið jafnræði náðu gestirnir í Þór fimm stiga forskoti með þriggja stiga skoti frá Nikolas Tomsick þegar aðeins rétt tæplega 1 mínúta og 30 sekúndur lifðu leiks.

Allt virtist stefna í mjög óvæntan sigur gestanna. Þá var komið að þætti Dino Stipcic og Sigurðar Þorvaldssonar sem snéru töpuðum leik í sigur með tveimur risa þristum í lokin sem Þórsurum tókst ekki að svara.

Meistararnir í KR  tryggðu sér því nauman sigur í leik sem fyrirfram hefði kannski átt að vera þægilegur en reyndist svo allt annað en það.  Lokatölur 86-85 fyrir KR.

Jón Arnór var góður í kvöld.vísir/bára
Afhverju vann KR?

Í liði KR eru menn sem kunna hreinlega illa við það að tapa og geta snúið sig hæglega út úr erfiðum aðstæðum, það gerðu þeir enn eina ferðina í kvöld.

Sigurður Þorvaldsson hefur spilað lengi í þessari deild og þegar mest lá við nýtti hann alla sína reynslu til að setja niður þriggja stiga skot sem tryggði KR sigurinn.

Hann lét skotið líta úr fyrir að vera áreynslulaust og auðvelt, raunin er sú að skot sem þessi eru allt annað en auðveld.

Hverjir stóðu upp úr?

Jón Arnór Stefánsson sýndi á köflum í leiknum í kvöld gamla takta og er það greinilegt að hann er óðum að ná fyrri styrk. Björn Kristjánsson, Julian Boyd og Sigurður Þorvaldsson voru einnig sterkir í liði KR.

Í liði gestanna var Nikolas Tomsick frábær á köflum þar sem hann setti niður stórar körfur, einnig var Kinu Rochford öflugur.

Hvað gekk illa?

KR-ingum gekk ekkert sértaklega vel að spila vörn í þessum leik frekar en fyrstu tveimur leikjum liðsins. Liði Þórs gekk bara ekki að klára leik sem þeir voru með í höndunum og hefðu hæglega getað unnið, ef þeir hefðu haldið aðeins betur á spilunum í lokin.

Hvað gerist næst?

KR-ingar fara og heimsækja Val í sannkölluðum Reykjavíkurslag á meðan Þórsarar fá Grindavík í heimsókn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira