Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Keflavík 62-97 | Keflavík slátraði nágrönnunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Clinch gæti spilað í kvöld.
Clinch gæti spilað í kvöld. fréttablaðið/eyþór
Keflavík rótburstaði nágranna sína í Grindavík í 3.umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í kvöld. Gestirnir höfðu yfirhöndina nánast frá upphafi, leiddu með 25 stigum í hálfleik og heimamenn áttu aldrei möguleika.

Lokatölur 97-62 og Keflavík þar með að vinna sinn annan sigur í röð en Grindavík hefur tapað síðustu tveimur.

Lewis Clinch var mættur aftur í Röstina í kvöld en hann lék síðast með Grindavík í oddaleiknum gegn KR vorið 2017. Hann lenti í morgun og það sást á hans leik, hann hitti lítið og komst aldrei í takt við leikinn.

Keflvíkingar voru hins vegar í takti allan tímann. Þeir tóku frumkvæðið strax í upphafi, spiluðu frábæra vörn og komu heimamönnum sífellt í vandræði. Michael Craion var frábær, skoraði að vild og stal 5 boltum í fyrri hálfleik.

Keflavík leiddi með 25 stigum í hálfleik, staðan þá 51-26.

Í seinni hálfleik hélt svo slátrunin áfram. Heimamenn voru heillum horfnir og gestirnir gengu á lagið. Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda og Keflavík vann að lokum með 35 stigum, 97-62.

Af hverju vann Keflavík?

Þeir voru betri á öllum sviðum körfuboltans í dag. Þeir spiluðu betri vörn, börðust meira, spiluðu betri sókn og hittu mun betur.

Grindvíkingar virðast hins vegar eiga afar langt í land með að ná sér á strik. Sóknarlega voru þeir aldrei tengdir og þjálfurum heimamanna féllust oft hendur á bekknum þegar þeir fylgdust með leik sinna manna.

Það er spurning hvort Lewis Clinch komi og berji sjálfstraust í menn, það er ekki vanþörf á.

Þessir stóðu upp úr:

Michael Craion var frábær með 22 stig á tæpum tuttugu og tveimur mínútum. Gunnar Ólafsson var sömuleiðis afar góður og þá stýrði Hörður Axel Vilhjálmsson leik sinna manna eins og herforingi.

Það skipti litlu hver inn, menn settu niður körfur hjá Keflavík og það var enginn í þeirra liðið sem átti vondan dag í dag.

Hvað gekk illa?

Það gekk allt illa hjá Grindavík. Þeir hittu 27% utan af velli og náðu í 47 framlagspunkta gegn 135 hjá Keflavik. Þeir töpuðu frákastabarátutnni 46-31 og það er í raun of langur listi ef telja ætti upp allt það sem illa gekk hjá heimamönnum í dag.

Hvað gerist næst?

Keflavík fær Stjörnuna í heimsókn í afar áhugaverðum leik á fimmtudaginn. Þar mætast tvö heit lið í leik sem gaman verður að horfa á.

Grindavík fer Suðurstrandaveginn á fimmtudag og heldur í Þorlákshöfn. Þórsarar stóðu vel í KR-ingum í kvöld og eru betri en margir halda. Það verður forvitnilegt að sjá hvort Grindvíkingar verða búnir að bæta við sig leikmanni fyrir þann leik, eða jafnvel skipta um þjálfara.

Jóhann Þór: Veit ekki hvort ég haldi áfram hérna
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.vísir/ernir
Það var ekki laust við ákveðið vonleysi hjá Jóhanni Þór Ólafssyni þjálfara Grindavíkur eftir 97-62 tapið gegn Keflavík á heimavelli í kvöld.

„Liðið mitt er eins og það sé enn júní og við í einhverjum leik, í einhverjum pick-up bolta. Mig langar að segja svo margt en ég ætla að láta það ógert. Það eina jákvæða er hvernig fólkið mætir hérna og ég vona að það sé komið til að vera. Það eru sjálfsagt fleiri hér í kvöld en mættu á alla 11 leikina hér í Pepsi-deildinni í sumar,“ sagði Jóhann í samtali við Vísi eftir leik.

„Ég er algjörlega mát. Við erum rúnir öllu sjálfstrausti, það er alveg sama hver það er í mínu liði. Það eru allir í mínu liði eins og þeir séu að sjá körfubolta í fyrsta skipti. Það er alvega sama hvað við gerum, hvað við reynum. Þetta er eins og lélegur pick-up bolti það sem við erum að bjóða uppá hérna.“

„Þetta eru svipuð gæði og við buðum uppá gegn Breiðablik og Skallagrími. Hér mætum við hörkugóðu liði Keflavíkur og ef Sverrir hefði spilað á sínu sterkasta liði hefðu þeir farið í 150 stig. Eins og ég segi þá langar mig að segja svo margt en ég bara get það ekki.“

„Það var farið af stað en eins og staðan er núna hef ég mikilvægari hluti að hugsa um, hvort ég ætli að halda yfirhöfuð áfram hérna. Þetta er hræðilegt.“

Ertu að íhuga það að hætta með liðið?

„Já, ég verð að viðurkenna það.“

Sverrir Þór: Erum ekki komnir á þann stað sem við viljum vera á
Sverrir Þór var ánægður með sigur sinna manna
„Eins og deildin er þá er maður alltaf klár í erfiðan leik en það er búið að vera meiðsli og mannabreytingar hjá Grindavík og það riðlar alltaf hlutum. Við spiluðum mjög vel eiginlega allan leikinn, spiluðum hörkuvörn og áttum góðan leik,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur eftir stórsigurinn í Grindavík í kvöld.

„Vörnin var frábær. Við komum klárir, fyrir leikinn var rætt um meiðsli og að Clinch væri að koma. Við hefðum getað farið að velta fyrir okkur þessum hlutum en það gengur ekki. Við þurfum að einbeita okkur að sjálfum okkur, sama við hverja við erum að spila og hvernig þau eru skipuð. Við þurfum að vinna okkar vinnu og það gerðum við mjög vel í kvöld.“

Þetta var annar sigurinn í röð hjá Keflavík eftir tap gegn Njarðvík í fyrstu umferðinni.

„Mótið er rétt að byrja og við erum ekki komnir á þann stað sem við viljum vera á og þar sem við teljum okkur vera á til að vera á toppstað þegar líður á mótið. Við erum að vinna í því og mér fannst við taka fullt af stórum skrefum í rétta átt í kvöld en vinnan heldur áfram.“

Hörður Axel: Þetta var ekki auðvelt
Hörður Axel Vilhjálmsson var flottur með Keflavík í kvöld.Vísir/Bára
Hörður Axel Vilhjálmsson átti fínan leik gegn Grindvík í kvöld og stýrði leik sinna manna vel.

„Þetta var ekki auðvelt, það er aldrei auðvelt að vinna. Við lögðum okkur alla fram til að vinna þennan leik og uppskárum eftir því,“ sagði Hörður Axel við Vísi eftir leik.

„Vörnin okkar var mjög góð og það er þannig hjá okkur að þegar vörnin er góð þá kemur sóknin með. Við héldum áfram að þjarma að þeim og það er það sem við þurfum að taka með úr þessum leik, við gáfum þeim aldrei möguleika.“

„Það er það sem vantaði í fyrra og við þurfum að læra að klára leiki þegar okkur gefst færi á því. Svona eins og gamla skóla Keflavík að keyra yfir lið ef maður hefur tækifæri á því. Það tókst í dag,“ bætti Hörður Axel við.

Michael Craion var frábær hjá Keflavík þær 22 mínútur sem hann spilaði, virtist skora að vild og stal einnig 5 boltum í vörninni í fyrri hálfleik.

„Við létum hann fá boltann ef okkur vantaði kannski körfu til að drepa leikinn. Það skilaði alltaf og það er auðvitað æðislegt að hafa svoleiðis mann í liðinu. Það voru aðrir sem stigu líka upp, sérstaklega varnarlega og til dæmis var Gunnar (Ólafsson) rosalega flottur hér í kvöld. Hann var úti um allt og svaka kraftur bæði sóknarlega og varnarlega.“

Eftir tap gegn Njarðvík í fyrstu umferð kom sigur gegn KR í fyrstu umferð og svo annar hér í dag.

„Það var ekki eins og við hefðum spilað illa gegn Njarðvík. Þeir tóku seinustu 3-4 mínúturnar og hittu risastórum skotum. Við spiluðum vel í þeim þannig að við gátum byggt á því þó að við fengjum engin stig. Við erum brattir og spenntir fyrir Stjörnunni á fimmtudaginn,“ sagði Hörður Axel að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira