Innlent

Höfuðborgarbúar nota heitt vatn sem aldrei fyrr

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þegar kalt er í veðri og stormur úti þykir gott að nota heitt vatn.
Þegar kalt er í veðri og stormur úti þykir gott að nota heitt vatn. Getty/Sonja Kury
Metsala var á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu í september sé litið til áranna frá 2014. Þá fóru 5578 milljónir rúmmetra til höfuðborgarbúa,  bæði heimila og fyrirtækja, en fyrra met var sett í septembermánuði árið 2016 þegar notkunin var 4804 milljónir rúmmetra. Ástæðan er sögð einföld í fréttabréfi Veitna: Tíðarfarið

„September var ágætur framan af en síðustu 10 daga mánaðarins kólnaði talsvert,“ eins og það er orðað. September er þó ekki eini mánuðurinn á þessu ári þar sem metin hafa verið að falla. „Frá áramótum hafa met verið slegin í hverjum mánuði, að undanskildum mars mánuði sem jafnar met frá 2015 og apríl þegar notkunin var í meðallagi,“ segir í fréttabréfinu.

Þrátt fyrir að Veitur telji að rysjótt tíð sé líklega helsta ástæðan gætu þó fleiri þættir verið að verki.

„Notkun á heitu vatni hefur aukist mikið á síðustu árum, eða um tæplega 20% á síðustu fimm árum. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um tæplega 14.000 manns á tímabilinu og fjöldi ferðamanna stóraukist. Allt þetta fólk þarf heitt vatn.“

Um 90% notkunar heimila á heitu vatni fer í ofnakerfið. Vilji fólk lækka orkureikninginn er því þannig ráðlagt að yfirfara hitakerfi hússins til að skapa þægilegan innihita, halda kostnaði í lágmarki og til að ná hámarksnýtingu heita vatnsins. Þá er einnig kjörið að gæta að þéttleika og einangrunar hurða og glugga. Að sama skapi ætti ekki að opna glugga að óþörfu þegar kalt er í veðri, því þá er hitanum hleypt út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×