Innlent

Sveitarstjórnarmál vistuð á Laugarvatni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Samþykkt hefur verið að koma upp rannsókna og fræðslusetri á Laugarvatni um sveitarstjórnarmál en samningur þess efnis var undirritaður í Hveragerði í dag á ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á Hótel Örk.

Hlé var gert í smástund á dagskránni þegar rektor Háskóla Íslands og samgöngu og sveitarstjórnarráðherra skrifuðu undir samning um nýja rannsóknarsetrið um sveitarstjórnarmál sem tekur til starfa á Laugarvatni um næstu áramót.

„Þetta verkefni snýst um að vinna áfram rannsóknir á þessu sviði og einnig að þróa námsleið um sveitarstjórnarmál, endurmenntunarnámskeið og ýmislegt þess háttar. Þetta mun örugglega skila mjög miklu og við sjáum það að rannsóknir í félagsvísindum skipta Íslendinga mjög miklu máli. Við verðum að sinna þessum rannsóknum sjálf, það er ekki aðrir sem gera þetta fyrir okkur og þetta mun örugglega skila miklu í nýrri þekkingu og miklu betri greiningu en við höfum haft áður“, segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.

Rektor Háskóla Íslands og ráðherra sveitarstjórnarmála, ásamt fólkinu sem kemur að uppbyggingu starfseminnar á Laugarvatni.Magnús Hlynur Hreiðarsson
Nýja rannsóknarsetrið verður til húsa þar sem íþróttafræðasetur Háskóla Íslands var áður á Laugarvatni. Ríkið leggur 36 milljónir króna til nýja setursins næstu þrjú árin.

„Þetta skilar án efa meiri þekkingu inn í sveitarstjórnarstigið og á staðnum verður aðstaða svo sveitarstjórnarmenn geti sótt námskeið og þarna verður líka hluti af MPA námi, þannig að ég er mjög ánægður með aðkomu háskólans hvað þetta varðar“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sveitarstjórnarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×