Fótbolti

Ekki útilokað að þjálfari verði kynntur í dag

Kristinn Páll Teitsson skrifar
vísir/egill
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að viðræður við næsta þjálfara íslenska kvennalandsliðsins séu á lokastigi en segist ekki viss hvort það náist að kynna hann fyrir helgina.

Klara hefur ásamt Guðna Bergssyni, formanni KSÍ, og Guðrúnu Ingu Sívertsen, formanni landsliðsnefndar kvenna, séð um viðræður við þjálfara um að taka við liðinu af Frey Alexanderssyni sem sagði upp störfum í haust til að einbeita sér að aðstoðarþjálfarastarfinu hjá karlalandsliðinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tekur Jón Þór Hauksson við liðinu en lengri tíma hefur tekið að finna aðstoðarþjálfara eftir að Ásthildur Helgadóttir afþakkaði boð KSÍ í síðustu viku. Klara segir erfitt að segja til um hvenær KSÍ muni opinbera næsta landsliðsþjálfara, aðspurð hvort það muni nást fyrir helgi.

„Það styttist í að við kynnum næsta þjálfara en ég þori ekki að lofa því fyrir helgina. Ég ætla ekki að útiloka að það verði tilkynnt í dag en ég mun heldur ekki staðfesta það,“ segir Klara sem segir að það þurfi að huga að ýmislegu þegar komi að ráðningu þjálfarans og það hafi tafið ferlið.

„Það tekur tíma að semja við fólk um kaup og kjör, finna réttu blönduna í þjálfarateymið þannig að þetta hefur tekið smá tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×