Lífið

Birtir nýtt myndband og segir að öll myndin hefði átt að tætast

Samúel Karl Ólason skrifar
Öll myndin átti að fara í gegnum tætarann neðst í rammanum.
Öll myndin átti að fara í gegnum tætarann neðst í rammanum.
Götulistamaðurinn Banksy hefur birt enn eitt myndband af atviki þar sem listaverk eftir hann fór að hluta til í gegnum tætara, skömmu eftir að það var selt á uppboði fyrir rúmlega 1,3 milljónir dala. Að þessu sinni er farið nánar yfir ferlið við framleiðslu myndarinnar. Myndin hét upprunalega Stúlka með blöðru en hefur nú verið gefið nafnið Ástin er í ruslafötunni.

Fram kemur að myndin átti upprunalega að fara öll í gegnum tætarann og það hafi ávallt virkað á æfingum. Fyrsta klúðrið hafi verið á uppboðinu sjálfu.

Það þykir þó vera heppilegt þar sem manneskjan sem keypti listaverkið hefur ákveðið að halda því og lítur það betur út á vegg en það hefði gert ef öll myndin hefði farið í gegnum tætarann.

Myndbandið sýnir einnig að eftir að myndin seldist ýtti einhver í áhorfendahópnum á fjarstýringu sem setti tætarann í gang.

Uppboðshaldarinn Sotheby‘s segir þetta í fyrsta sinn sem listaverk er skapað. Í yfirlýsingu á síðu Sotheby's er haft eftir kaupanda verksins að upprunalega hafi hún verið hneyksluð. Það hafi hins vegar breyst og nú eigi hún hluta af listasögunni.

Listamaðurinn, sem hefur aldrei komið fram undir nafni, er mikill aðgerðarsinni og hefur hann meðal annars notað list sína til þess að vekja athygli á málefnum Palestínumanna og Kúrda. Þá hefur hann talað gegn neysluhyggju og hernaði.


Tengdar fréttir

Listaverk tætt eftir að hafa verið selt fyrir meira en milljón dali

Stensilmálverk eftir heimsfræga götulistamanninn Banksy tættist í ræmur eftir að hafa verið selt fyrir rúmlega 1,3 milljónir Bandaríkjadollara, tæpar 150 milljónir króna. Málverkinu hafði verið komið fyrir í þar til gerðum ramma sem tætti það svo niður stuttu eftir að það var selt á uppboði í London.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×