Umfjöllun og viðtöl: ÍR 92-82 Breiðablik | Blikarnir enn stigalausir

Skúli Arnarson í Hertz-hellinum skrifar
vísir/bára
Það fór fram hörku leikur í Hertz-hellinum í kvöld þegar ÍR sigraði Breiðablik með 92 stigum gegn 82. Leikurinn var hluti af þriðju umferð Dóminosdeildar karla í körfuknattleik. Breiðablik bíður því enn eftir fyrsta sigrinum sínum á meðan ÍR eru komnir með tvo sigurleiki í röð eftir tap gegn Stjörnunni í fyrstu umferð. ÍR voru án síns jafnbesta leikmanns, Matthíasar Orra, en hann hefur verið frábær með ÍR síðustu tímabil.

Breiðablik fóru vel af stað og tók Borche, þjálfari ÍR, leikhlé eftir um sjö mínútur í fyrsta leikhluta. Þá var staðan orðin 14-19 fyrir gestina frá Kópavogi. Blikar héldu forystunni út fyrsta leikhluta og var staðan 20-24 að honum loknum. Breiðablik voru að keyra upp hraðann líkt og þeir hafa gert í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins og var það að ganga mjög vel framan af.

Annar leikhluti var stál í stál. Blikar héldu áfram að keyra upp hraðann og hlaupa mikið en gerðu mistök í takt við það. Þeir voru oft að velja erfið þriggja stiga skot þegar mikið var eftir af skotklukkunni. Staðan að loknum öðrum leikhluta var hnífjöfn, 44-44. Justin Martin var með 16 stig fyrir ÍR í hálfleik á meðan stigaskor Blika dreifðist mjög jafnt. Það voru hinsvegar vítanýting liðanna sem var áberandi í fyrri hálfleik, ÍR með 53% nýtingu af línunni og Breiðablik lítið skárri með 57%.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum en liðin skoruðu úr öllum sínum sóknum til að byrja með.  Þriðji leikhlutinn var æsispennandi og skiptust liðin á að taka forystu í leiknum. Blikar voru enn að spila gífurlega hraðan bolta og áttu ÍR oft á tíðum mjög erfitt með að halda í við þá og stjórna hraðanum í leiknum. Eftir þrjá leikhluta var staðan 65-66, gestunum í vil.

Breiðablik voru búnir að spila þennan leik mjög svipað og þeir hafa spilað hina tvo leiki tímabilsins, mjög hratt með mjög örum skiptingum. Í hinum tveimur leikjum tímabilsins höfðu þeir hinsvegar skíttapað fjórða leikhluta og nú var spurningin hvort að þeir myndu ná að spila jafn vel í fjórða leikhluta og hina þrjá.

Í stuttu máli sagt tókst það ekki hjá Blikum. Þeir fóru að gera klaufaleg mistök og voru ekki að hitta vel úr skotunum sínum. ÍR á hinn bóginn fóru að hitta vel og settu niður nokkrar stórar þriggja stiga körfur og voru komnir með tíu stiga forystu þegar fimm mínútur lifðu leiks. Sá munur hélst út leikinn og að lokum var þokkalega þæginlegur tíu stiga sigur ÍR staðreynd.

Afhverju vann ÍR leikinn?

ÍR spiluðu ekki sinn besta leik en það dugði í dag. Blikarnir virtust bensínlausir í fjórða leikhluta og ÍR hitti úr stórum skotum og lokuðu þannig leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði ÍR var Justin Martin atkvæðamestur sóknarlega með 31 stig. Næstir á eftir honum komu Gerald Robinson með 25 stig og Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 18 stig. Þrátt fyrir að það sjáist ekki á stigaskorun þá átti Daði Berg Grétarsson einnig flottan leik og stjórnaði hraðanum vel í fjórða leikhluta, en þær 20 mínútur sem hann spilaði fyrir ÍR unnust með 21 stigi. 

Í liði Breiðabliks var Christian Covile atkvæðamestur með 24 stig en stigaskor Blika dreifðist mjög jafnt og skoruðu alls tíu leikmenn fyrir Blika í kvöld.

Hvað gekk illa?

Eins og það gekk vel fyrir Blika að keyra upp hraðan fyrstu þrjá leikhlutanna þá gekk það alls ekki vel í fjórða leikhluta. Vítanýting beggja liða var hræðileg í dag en Blikar voru með 53% nýtingu á línunni á meðan ÍR settu nokkur stór víti í fjórða leikhluta og rifu nýtinguna upp í 62%.

Hvað gerist næst?

ÍR eiga útileik gegn nýliðum Skallagríms næsta föstudag og ljóst er að það verður hörku leikur. Blikar fara í Hafnarfjörðin og eiga við Hauka sem hafa leikið mjög illa síðustu tvo leiki og þar er dauðafæri fyrir Breiðablik að ná í sinn fyrsta sigur í vetur.

Borche: Okkar markmið er að vaxa sem lið í gegnum tímabilið.
Borche Ilievskivísir/bára
Borche Ilievski, þjálfari ÍR var ekkert sérstaklega sáttur við spilamennsku sinna manna í dag þrátt fyrir sigur.

“Ég er ekki ánægður með spilamennskuna en ég er ánægður með sigurinn. Við gerum fullt af mistökum, sérstaklega varnarlega þar sem skipulagið var ekki eins og það á að vera. Jafnvel þó við skorum 92 stig þá söknum við Matta mikið. Við þurfum að bæta mikið en ég er ánægður með sigurinn.”

Hann vill fá fleiri stig fá fleiri leikmönnum liðsins.

“Við erum með þrjá leikmenn sem skora langflest stigin okkar og mér finnst að þeir beri einir ábyrgðina á þessum sigri.”

Leikurinn var jafn í þrjá leikhluta en svo stungu ÍR af í fjórða. Borche var ánægður með Sigurkarl og fannst hann mikilvægur hlekkur í að koma ÍR í góða stöðu í fjórða leikhluta.

“Mér fannst Sigurkarl koma með kraft í fjórða leikhluta sem snéri leiknum okkur í vil. Eftir það náðum við að sigla þessu heim.”

ÍR fengu til sín leikmenn seint í glugganum og eru enn að móta sitt lið.

“Við settum saman liðið okkar seinna en önnur lið þar sem Gerald Robinson kom aðeins degi fyrir fyrsta leik. Okkar markmið er að vaxa sem lið í gegnum tímabilið. Mér finnst við vera á réttri leið og þegar Matti kemur til baka þá held ég að við verðum betri.”

Borche elskar heimavöllinn en fannst sínir leikmenn stressaðir í dag.

“Það er alltaf frábært að spila á heimavelli en mér fannst eins og mínir leikmenn hafi fundið fyrir pressunni og það gæti verið ein af ástæðunum fyrir því að við spiluðum ekki betur.”

Sigurður Gunnar Þorsteinsson: Þetta eru bestu áhorfendur í heimi“Mér finnst við vera mikið betra lið, en ég er hrifinn af Blikum. Mér finnst þeir vera töffarar. Þeim er bara drullusama hvort að boltinn fari ofan í eða ekki, þeir bara halda áfram og eru ekkert að hengja haus. Það er gífurlega erfitt að spila við lið sem gera það,” sagði Sigurður Gunnar, leikmaður ÍR, sem er hrifinn af Blika liðinu.

Breiðablik spilaði mjög hratt í dag og Sigurði fannst að ÍR hefðu átt að hægja meira á þeim.  

“Við gerðum ekki nægilega vel að stjórna hraðanum. Það var svolítið okkar að ná að hægja á þeim og taka góð skot svo að við náum að stilla upp í vörn.”

ÍR settu niður stór skot í fjórða leikhluta og fannst Sigurði það vera vendipunkturinn í leiknum.

“Við fórum að hitta einhverjum fáranlegum þristum, náðum að byggja smá bil og náðum svo að halda því út leikinn.”

ÍR eru með þrjá nýja leikmenn í byrjunarliðinu frá síðustu leiktíð.

“Við erum ennþá bara á byrjunarstigi, þetta er allt að koma hægt og rólega.”

“Það er aldrei leiðinlegt að spila fyrir framan þessa áhorfendur, þetta eru bestu áhorfendur í heimi,”- sagði Sigurður að lokum, en þetta var hans fyrsti heimaleikur fyrir ÍR.  

Pétur Ingvarsson: Fannst við leggja okkur fram í 40 mínútur“Þetta er sterkur heimavöllur. Þetta er fyrsti heimaleikur ÍR og þeir komu stemmdir í þetta og við þurfum að skora 100 stig til að vinna í dag. Það vantaði 18 stig hjá okkur. Mér fannst við leggja okkur fram í 40 mínútur en það var bara ekki nóg í dag,” sagði Pétur, þjálfari Breiðabliks, að leik loknum.

Enn og aftur misstu Blikar leik frá sér í fjórða leikhluta. Aðspurður hversvegna þeir misstu leikinn frá sér í dag nefndi Pétur einn leikmann ÍR sem honum fannst eiga stóran þátt í því.

“Þeir náðu smá forystu og í kjölfarið ná þeir að hægja á leiknum. Daði gerði það mjög vel fyrir þá að stýra þessu hjá þeim og svo þegar lítið var eftir af skotklukkunni settu þeir stóra þrista ofan í.”

Er kominn efi í Breiðablik að þeir geti spilað svona hratt í fjóra leikhluta eftir að missa fyrstu þrjá leiki tímabilsins frá sér í fjórða leikhluta?

“Örugglega. En fyrir tímabilið var okkur spáð neðsta sæti og menn voru að tala um að við myndum ekki vinna neinn leik. Ef að það er kominn efi eftir þrjá leiki þegar það eru 19 leikir eftir þá hafa men ekki mikið úthald. Við þurfum að spila einhvernveginn og ég held að þetta sé leiðin. Annaðhvort þarf þá að skipta um aðferðafræði eða skipta um þjálfara.”

Pétur segir að svona ætli liðið að spila í vetur.

“Svona er liðið okkar byggt og svona ætlum við að spila í vetur. Niðurstaðan kemur þá bara í ljós. Við erum búnir að vera að tapa leikjunum á lokametrunum. Við þurfum bara að finna út úr því. Allavega ætlum við ekki að fara að skíttapa þessu strax.”

Vítanýting Blika í dag var alls ekki góð og hefur Pétur smá áhyggjur af því.

“Það er áhyggjuefni. Ég sagði það áðan að okkur vantar 18 stig, hvaðan sem þau koma. Þetta er eitthvað sem við æfum nánast daglega en það er víst ekki hægt að æfa sig að taka víti á móti ÍR á útivelli, það er öðruvísi pressa.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira