Innlent

Erfingjar dánarbúa slá skiptum á frest í von um lægri skattgreiðslur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frumvarpið kveður á um að af fyrstu 75 milljónum skattstofns dánarbús skuli greiða fimm prósenta erfðafjárskatt en tíu prósent af skattstofni umfram 75 milljónir króna.
Frumvarpið kveður á um að af fyrstu 75 milljónum skattstofns dánarbús skuli greiða fimm prósenta erfðafjárskatt en tíu prósent af skattstofni umfram 75 milljónir króna. Fréttablaðið/Stefán
Dæmi eru um að erfingjar dánarbúa telji að skattstofn erfðafjárskatts muni lækka um næstu áramót og óski því eftir því að skiptalokum verði frestað fram á næsta ár. Þetta kemur fram í umsögn sýslumannsembættisins á Austurlandi við frumvarp Óla Björns Kárasonar um þrepaskiptingu erfðafjárskatts.

Frumvarpið kveður á um að af fyrstu 75 milljónum skattstofns dánarbús skuli greiða fimm prósenta erfðafjárskatt en tíu prósent af skattstofni umfram 75 milljónir króna. Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2019 verði þau samþykkt.

Í umsögn sýslumannsins er engin athugasemd gerð við þrepaskipt­inguna en lagt til að í gildistökuákvæðinu verði kveðið á um að lögin taki til þeirra sem „andast þann dag eða síðar“ auk þeirra sem hafa heimild til setu í óskiptu búi og álagningar erfðafjárskatts á fyrirframgreiddan arf eftir gildistöku laganna.

„Með því að kveða á um að lagabreytingin eigi eingöngu við um dánarbú þeirra sem andast við eða eftir gildistöku þeirra er réttaróvissu eytt og enginn þarf að velkjast í vafa um hvaða reglur gilda,“ segir í umsögninni.

Ágreiningur um lagaskil erfðafjárskatts hefur ratað fyrir dómstóla. Árið 2004 féll dómur í Hæstarétti vegna slíks máls. Þar hafði einstaklingur andast árið 2003 og erfingjar fengið leyfi til einkaskipta. Sex vikum síðar tóku gildi ný lög um erfðafjárskatt en þar var ekki kveðið á um hvernig skyldi fara með álagningu erfðafjárskatts á dánarbú þeirra sem létust í tíð eldri laga. Skattskýrslu var skilað eftir að nýju lögin tóku gildi. Niðurstaða Hæstaréttar var að ekki hefði verið heimild til að innheimta erfðafjárskatt í tilvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×