Erlent

Ímynd Bandaríkjanna hrakar í forsetatíð Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Álit á Bandaríkjunum tók dýfu í könnun Pew í fyrra, árið sem Trump tók við forsetaembætti.
Álit á Bandaríkjunum tók dýfu í könnun Pew í fyrra, árið sem Trump tók við forsetaembætti. Vísir/Getty
Almenningur í tuttugu og fimm löndum hefur meiri trú á leiðtogahæfileikum Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og Xi Jinping, forseta Kína, en Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Ný skoðanakönnun leiðir í ljós að álit fjölda þjóða á Bandaríkjunum heldur áfram að minnka, ekki síst í Evrópu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert margt til að snúa íbúum hefðbundinna bandalagsríkja Bandaríkjanna gegn þeim að undanförnum. Hann hefur lagt tolla á innflutningsvörur helstu nágrannaþjóða og bandamanna, dregið Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu og kjarnorkusamningnum við Íran og hallað sér að einræðisherrum eins og Pútín og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Könnun Pew-rannsóknarstofnunarinnar á viðhorfum fólks í 25 löndum sýnir að álit margra þjóða á Bandaríkjunum, sem minnkaði verulega eftir að Trump tók við sem forseti í fyrra, heldur áfram að dvína, að því er segir í frétt Reuters.

Þannig hafa aðeins 30% Þjóðverja jákvæða sín á Bandaríkin um þessar mundir. Það er fimm prósentustigum færri en í fyrra. Rétt undir 40% Frakka og Kanadamanna eru jákvæð í garð Bandaríkjanna.

Mest ánægju með Bandaríkin er í Ísrael, Filippseyjum og Suður-Kóreu þar sem um og yfir 80% eru jákvæð. Þegar litið er til meðaltals allra þjóðanna sagðist helmingur jákvæður í garð Bandaríkjanna en 43% neikvæð.

Traustið á Trump sjálfum er enn lægra. Á Spáni, í Frakklandi og Þýskalandi hafa aðeins á bilinu 7-10% trú á leiðtogahæfileikum Bandaríkjaforseta. Meirihluti hafði ekki trú á Trump í tuttugu af ríkjunum sem könnunin náði til.

Mesta trú höfðu svarendur á Angelu Merkel kanslara Þýskalands. Hún var eini leiðtoginn sem spurt var um sem meirihluti bar traust til, 52%. Það er um helmingi fleiri en báru traust til Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×