Erlent

Ræðu Boris Johnson beðið með mikilli eftirvæntingu

Atli Ísleifsson skrifar
Boris Johnson sagði af sér sem utanríkisráðherra Bretlands í sumar.
Boris Johnson sagði af sér sem utanríkisráðherra Bretlands í sumar. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, vonast til að hún geti þétt raðirnar innan breska Íhaldsflokksins og fengið flokkinn að fylkjast á bakvið umdeilda Brexit-áætlun sína, á flokksþingi sem nú fer fram í Birmingham.

Þó má telja líklegt að klofningurinn innan flokksins verði enn áþreifanlegri þegar utanríkisráðherrann fyrrverandi, Boris Johnson, flytur sína ræðu á þinginu síðar í dag. Ræðunnar er beðið með mikilli eftirvæntingu, en margir telja að Johnson stefni sjálfur á leiðtogaembættið innan flokksins og þannig skora May á hólm.

Skot á May?

Þrátt fyrir að vera víðs fjarri hefur Johnson tekist að vekja athygli á flokksþinginu. Mynd af Johnson var mikið í umræðunni á fyrsta degi þingsins þar sem sást til hans hlaupa um í háu grasi. Var það túlkað sem skot á May sem hefur áður sagt að það villtasta sem hún gerði á sínum yngri árum hafi verið að hlaupa yfir hveitiakur án leyfis.

Flokksþingið snýst að langstærstum hluta um Brexit og reynir May nú allt til að fá flokkinn til að ná saman um Chequers-áætlun sína um útgöngu.

Sagði af sér í sumar

Johnson sagði af sér sem utanríkisráðherra fyrr í sumar vegna óánægju sinnar þegar kom að afstöðu May til Brexit. Búist er við að hann muni í ræðu sinni gera tilraun til að auka á óvinsældir May og Brexit-áætlunar hennar.

Dominic Raab, ráðherra Brexit-mála, segir Chequers-áætlunina ekki vera fullkomna, en að málamiðlanir séu nauðsynlegar. Johnson hefur sjálfur barist fyrir „hörðu Brexit“.

May mun sjálf flytja sína ræðu í fyrramálið og má telja líklegt að viðbrögð flokksfélaga muni ráða úrslitum um framhaldið.


Tengdar fréttir

Útiloka ekki að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu eftir allt saman

Lófatakið ætlaði enga enda að taka eftir að þingmaður breska Verkamannaflokksins lýsti því yfir á flokksþingi í morgun að enginn gæti lengur útilokað þann möguleika að Bretland yrði um kyrrt í Evrópusambandinu eftir allt saman. Önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um málið væri nú í kortunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×