Erlent

Kristersson fær umboð til stjórnarmyndunar

Atli Ísleifsson skrifar
Andreas Norlén þingforseti og Ulf Kristersson, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna.
Andreas Norlén þingforseti og Ulf Kristersson, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna. Vísir/EPA
Forseti sænska þingsins hefur veitt Ulf Kristersson, leiðtoga hægriflokksins Moderaterna, umboð til að mynda nýja ríkisstjórn í landinu. Frá þessu greindi Andreas Norlén, þingforseti og samflokksmaður Kristersson, í dag.

Norlén segir Kristersson hafa meirihluta á þingi á bakvið sig sem er á því að hann eigi að fá tækifæri til að mynda nýja stjórn, auk þess að hann leiddi bandalagið sem kom fyrri ríkisstjórn frá. Ríkisstjórn Jafnaðarmanna og Græningja hefur stýrt Svíþjóð síðustu fjögur árin.

Kristersson hefur nú tvær vikur að mynda nýja ríkisstjórn. Norlén segir að þeir Kristersson muni ræða saman að viku liðinni hvernig stjórnarmyndun miðar áfram. Norlén segir að hann fer einungis fram á að mynduð verði stjórn sem meirihluti þings muni verja vantrausti.

Þingið mun svo greiða atkvæði um Kristersson og stjórn hans. Náist ekki meirihluti á þinginu mun þingforsetinn aftur ræða við leiðtoga flokkanna og svo í kjölfarið fela öðrum að reyna að mynda stjórn.

Takist þinginu ekki að samþykkja nýjan forsætisráðherra, sem forsetinn hefur tilnefnt, í fjórum tilraunum skal boða til nýrra kosninga.

Uppfært 14:05: 

Kristersson sagði á blaðamannafundi klukkan 14 að hann muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að mynda stjórn borgaralegu flokkanna. Hann viðurkennir að staðan sé mjög erfið en hann telur að hægt sé að mynda nýja stjórn. Hann segist ætla að ræða við leiðtoga borgaralegu flokkanna sem og Stefan Löfven, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtoga Jafnaðarmanna. Kristersson segist ekki ætla að ræða við Jimmie Åkesson, formann Svíþjóðardemókrata, eins og staðan er nú.


Tengdar fréttir

Lööf opnar á samstarf með Jafnaðarmönnum

Formaður Miðflokksins í Svíþjóð segir að leiðtogar flokka verði að byrja að ræða hver við annan til að hægt verði að mynda ríkisstjórn í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×