Golf

Reed segir að Spieth hafi ekki viljað spila með sér

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Reed og Tiger voru slakir saman á Ryder Cup.
Reed og Tiger voru slakir saman á Ryder Cup. vísir/getty
Hinn óvinsæli kylfingur, Patrick Reed, er búinn að gera allt brjálað í herbúðum bandaríska Ryder Cup-liðsins. Hann ákvað að opna sig eftir flenginguna sem Bandaríkjamenn fengu á Le Golf National.

Hinn afar sérstaki Reed hefur oft sagt að honum sé alveg sama hvað fólki finnist um hann og honum virðist greinilega líka standa á sama hvaða álit liðsfélagarnir hafa á honum.

Reed og Jordan Spieth hafa verið afar farsælir sem teymi í Ryder Cup og hann bjóst því við að spila aftur með honum. Svo fór ekki en Reed fékk reyndar að spila með Tiger Woods í staðinn.

„Ástæðan fyrir þessari breytingu er einfaldlega sú að Jordan vildi ekki spila með mér. Ég á ekki í neinum deilum við hann og í raun er mér alveg sama hvort ég spili með einhverjum sem mér líkar við og öfugt. Þetta snýst um að gera það rétta fyrir liðið,“ sagði Reed.

Spieth og Jim Furyk, fyrirliði bandaríska liðsins, sögðu að þetta hefði allt verið liðsákvörðun en Reed segir það vera tómt kjaftæði. Spieth hefði tekið þessa ákvörðun. Hann var líka ósáttur við Furyk fyrir að hvíla sig í tveimur leikjum.

„Að skilja eins sigursælan leikmann í Ryder eins og mig eftir á bekknum er ekki gáfuleg ákvörðun,“ sagði Reed.

Reed og Tiger töpuðu báðum leikjum sínum í Rydernum. Spieth vann þrjá og tapaði einum með Justin Thomas í sínu liði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×