Innlent

Tókst að redda flugferð heim

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Eggert Páll Einarsson sem staddur er í fríi á Tenerife ætlaði að fljúga heim með Primera Air á laugardaginn.
Eggert Páll Einarsson sem staddur er í fríi á Tenerife ætlaði að fljúga heim með Primera Air á laugardaginn. Aðsend mynd
„Þegar ég las yfir Vísi í gær og sá að flugfélagið Primera Air var gjaldþrota spurði ég konuna mína hvort þetta væri ekki flugfélagið sem við ættum að fljúga heim með,“ segir Eggert Páll Einarsson sem er staddur í fríi á Tenerife.

Hjónin hafa verið á Tenerife í viku og höfðu keypt sér flug heim til Íslands á laugardaginn n.k. með Primera Air. Eggert segir að þau hafi reynt að hringja í gærdag í Heimsferðir til að tryggja sér flugfar heim en ekki náð í gegn fyrr en í dag enda álagið greinilega afar mikið.

„Við tékkuðum á flugi með flugfélaginu WOW í gær og fargjaldið kostaði fjörutíu og eitt þúsund krónur, þegar við könnuðum það svo aftur í dag hafði það hækkað um tíu þúsund krónur. Við voru því afar fegin þegar við náðum loks í Heimsferðir nú rétt áðan og gátum bókað flug heim næsta laugardag með leiguvél á vegum Travel Service á tuttugu og fimmþúsund krónur á manninn með ferðatösku,“ segir Eggert.

Hann segir að það hafi ekki legið beint við að þau fengju flugfar heim á þennan hátt því þau höfðu ekki bókað ferðina á sínum tíma með Heimsferðum heldur keyptu flugið beint af Primera Air. Eggert ætlar að reyna að fá skaðann bættan og það komi í ljós þegar hann kemur heim.

„Við tryggjum hjá VÍS og í smáa letrinu þeirra kemur fram að félagið dekkar ekki svona gjaldþrot. Mögulega er hægt að sækja bætur gegnum VISA eða bankann okkar, það kemur bara í ljós,“ segir Eggert að lokum sem ætlar að njóta síðustu sólardaganna á Tenerife.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×