Viðskipti innlent

Heimilt að hækka hlutafé WOW air um helming

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Skúli Mogensen, forstjóri WOW.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW. Vísir/Ernir
Samþykkt var á hluthafafundi WOW air í síðustu viku að heimila stjórn flugfélagsins að hækka hlutafé þess um allt að helming til þess að mæta útgáfu áskriftarréttinda að hlutum í félaginu.

Hluthafafundurinn heimilaði jafnframt stjórn félagsins að gefa út áskriftarréttindi innan næstu fimm ára. Er stjórninni heimilt að hækka hlutafé WOW air – til samræmis við útgefin áskriftarréttindi – um tæplega 81 milljón króna að nafnvirði. Til samanburðar er heildarhlutafé flugfélagsins 162 milljónir króna.

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, er sem kunnugt er eini eigandi flugfélagsins.

Fram kemur í tilkynningu flugfélagsins til fyrirtækjaskrár, sem Markaðurinn hefur undir höndum, að hvorki hluthafar né stjórn muni hafa forgangsrétt að áskrift að nýjum hlutum í félaginu. Er það stjórnin sem ákveður hverjir fá rétt til áskriftar.

WOW air tryggði sér fjármögnun upp á samtals 60 milljónir evra, jafnvirði 7,6 milljarða króna, í skuldabréfaútboði félagsins sem lauk um miðjan síðasta mánuð. Hefur félagið ráðið Arion banka og Arctica Finance til þess að undirbúa skráningu hlutabréfa félagsins innan tólf til átján mánaða, bæði hérlendis og erlendis. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×