Neymar með þrennu í stórsigri PSG

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/getty
PSG valtaði yfir Crvena Zvezda, eða Rauðu stjörnuna, í C riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Neymar skoraði þrennu fyrir PSG.

Fyrsta mark leiksins kom á 20. mínútu og gerði Brasilíumaðurinn Neymar það beint úr aukaspyrnu. Glæsileg spyrna yfir varnarveggin og við nærstöngina.

Hann bætti svo við öðru marki aðeins tveimur mínútum síðar eftir að PSG vann boltann af gestunum upp úr innkasti þeirra á eigin vallarhelmingi.

Frakklandsmeistararnir léku á alls oddi og yfirspiluðu gestina frá Serbíu. Edinson Cavani og Angel di Maria bættu við mörkum áður en flautað var til hálfleiks, staðan 4-0 og löngu orðið ljóst hver færi með sigur úr þessum leik.

Kylian Mbappe skoraði sitt annað mark í Meistaradeildinni í vetur á 70. mínútu. Fjórum mínútum síðar náðu gestirnir inn marki, fyrsta marki sem félagið skorar í Meistaradeildinni í 25 ár. Varamaðurinn Lorenzo Ebecilio var nýkominn inn á og lagði upp markið fyrir Marko Marin.

Markið breytti þó engu um gang leiksins. Neymar fullkomnaði þrennuna með öðru marki beint úr aukaspyrnu á 81. mínútu. Þetta var þriðja þrennan í Meistaradeildinni í ár. Markið sá Neymar einnig jafna Kaka sem markahæsta leikmann frá Brasilíu í Meistaradeildinni með 30 mörk.

Einn annar leikur fór fram á sama tíma, Lokomotiv Moskva og Schalke 04 mættust í D-riðli. Weston McKennie skoraði eina markið, og þar með sigurmarkið, fyrir Schalke á 88. mínútu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira