Viðskipti innlent

Hard Rock tapaði tæplega 400 milljónum króna

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Veitingastaðurinn Hard Rock Cafe opnaði í lok október 2016 í Lækjargjötu.
Veitingastaðurinn Hard Rock Cafe opnaði í lok október 2016 í Lækjargjötu.
Veitingastaðurinn Hard Rock Cafe í Lækjargötu tapaði 395 milljónum króna í fyrra en árið áður tapaði staðurinn 184 milljónum króna. Veitingastaðurinn var opnaður í lok október 2016. Það ár námu tekjurnar 148 milljónum króna en þær voru 777 milljónir króna í fyrra.

Högni Pétur Sigurðsson, sem á 94 prósenta hlut í fyrirtækinu og er framkvæmdastjóri þess, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu við Fréttablaðið. Hann var á meðal fjárfesta sem keyptu Domino's á Íslandi árið 2011 og seldu síðar fyrirtækið með miklum hagnaði til Domino's í Bretlandi í tveimur hlutum árin 2016 og 2017.

Fréttablaðið upplýsti haustið 2015 að Birgir Þór Bieltvedt, sem fjárfesti með Högna Pétri í Domino's, hafi fengið einkaleyfi fyrir Hard Rock Cafe. Í lok næsta árs hafði hann hins vegar selt hlut sinn til Högna Péturs og aðila tengdra honum, eins og Morgunblaðið komst að orði. Birgir Þór sagði að Domino's í Bretlandi hafi beðið hann um að einbeita sér að uppbyggingu keðjunnar á Norðurlöndum.

Neikvætt eigið fé félagsins sem heldur utan um rekstur Hard Rock Cafe, HRC Ísland, nemur 380 milljónum króna árið 2017. Engu að síður var hlutafé aukið um 100 milljónir það ár. Árið 2016 var eigið fé neikvætt um 148 milljónir en það ár voru fyrirtækinu einnig lagðar til 100 milljónir króna í nýtt hlutafé. Eigið fé fyrirtækisins sem á HRC Ísland, það er HRC eignarhaldsfélag, er neikvætt um hundrað milljónir króna og skuldar tengdum aðilum 100 milljónir króna. Nautica, sem á 30 prósenta hlut í veitingastaðnum, stendur traustum fótum og er með eigið fé sem er 908 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið er 87 prósent. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×