Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍR 94-77 | Stjarnan kláraði ÍR í síðari hálfleik

Böðvar Sigurbjörnsson í Mathús Garðabæjar-höllinni skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. vísir/bára
Stjarnan og ÍR mættust í kvöld í 1. Umferð Dominos deildar karla í körfubolta í Mathús Garðabæjar höllinni, í Garðabæ. Liðunum er spáð nokkuð ólíku gengi í vetur, liðið Stjörnunnar er spáð sigri í deildinni en ÍR-ingum spáð sjöunda sætinu.

Hvað sem spám líður þá skipta þær litlu máli þegar inn á völlinn er komið og það átti einmitt eftir að koma á daginn í leik liðanna í kvöld, allavega til að byrja með. Lið gestanna frá ÍR mætti geysilega sterkt til leiks og spilaði gríðar sterka 2-3 svæðisvörn í upphafi leiks sem virtist koma heimamönnum í opna skjöldu.

Með sterkan varnarleik að vopni náðu ÍR-ingar fljótlega undirtökunum í leiknum og leiddu stærstan hluta fyrri hálfleiks með 10 til 15 stiga mun. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn 10 stig og gestirnir með ágætis tök á leiknum.

Allt annað var upp á teningnum í seinni hálfleik þar sem lið heimamanna í Stjörnunni mætti mikið ákveðnara til leiks í seinni hálfleik og spilaði grimman varnaleik. Það ásamt því að Stjarnan fann svör við svæðisvörn gestanna lagði grunn að því að Stjarnan vann 3. Leikhluta með 10 stigum og þegar flautað var til loka leikhlutans var voru liðin jöfn.

Í fjórða og síðasta leikhlutanum hélt Stjarnan uppteknum hætti, varnarleikurinn var gríðar sterkur og sóknin gekk vel. Það fór því svo að lokum að Stjarnan sigraði nokkuð örugglega 94-77 í leik þar sem þeir voru lengi í gang en sýndu svo þegar leið á leikinn hversu sterkt liðið er þegar það nær sér á strik.  

Afhverju vann Stjarnan?

Þeir ákváðu að mæta til leiks í seinni hálfleik. Greinilegt er að farið var vel yfir hlutina í hálfleik því liðið mætti mikið grimmara til leiks í 3. leikhluta og horfði aldrei til baka eftir það.

Hverjir stóðu upp úr?

Paul Anthony Jones og Hlynur Bæringsson voru sterkir, og þá skilaði Collin Anthony Pryor einnig góðu framlagi hjá Stjörnunni. Hjá gestunum í ÍR voru Justin Martin og Matthías Orri Sigurðarson öflugir, sérstaklega í fyrri hálfleik.

 

Hvað gekk illa?

Stjörnunni gekk illa að spila á móti svæðisvörn gestanna í upphafi leiks. ÍR gekk illa að finna leiðir í gegnum sterka vörn Stjörnunnar í seinni hálfleik.

 

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer í heimsókn í Kópavoginn og mætir Breiðablik á meðan ÍR heimsækir Hauka.

Stjarnan-ÍR 94-77 (18-28, 27-27, 24-14, 25-8)

Stjarnan: Paul Anthony Jones III 26/10 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 17/12 fráköst/7 stoðsendingar, Collin Anthony Pryor 16/8 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 14/5 fráköst/7 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 12/4 fráköst, Antti Kanervo 6/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 3, Ingimundur Orri Jóhannsson 0, Dúi Þór Jónsson 0, Ágúst Angantýsson 0, Magnús B. Guðmundsson 0, Eysteinn Bjarni Ævarsson 0.

ÍR: Justin Martin 23/9 fráköst/5 stolnir, Matthías Orri Sigurðarson 18, Gerald Robinson 14/5 fráköst, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 9, Hákon Örn Hjálmarsson 8/6 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 5/7 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 0, Benoný Svanur Sigurðsson 0, Ísak Máni Wíum 0, Trausti Eiríksson 0, Einar Gísli Gíslason 0, Helgi Tómas Helgason 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Rögnvaldur Hreiðarsson

Arnar Guðjónsson var ánægður með sigurinn í kvöld en þetta var hans fyrsti leikur hans með Stjörnunni í Dominos-deild karla.vísir/bára
Arnar: Vinnubrögð sem voru gjörsamlega galin

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, sagðist aðspurður hvað hann hefði sagt við sína menn í hálfleik í sigrinum gegn ÍR að hann hefði einfaldlega ekki undirbúið lið sitt undir það að mæta 2-3 svæðisvörn gestanna.

„Ég stóð mig ekki í undirbúningnum og við vorum ekki tilbúnir fyrir 2-3 svæði. Þannig að við vorum óöruggir í upphafi og það smitaðist inn í vörnina, við eigum ekki að að fá á okkur 55 stig í hálfleik. Þess vegna er ég gríðarlega ánægður með það hvernig þetta fór að lokum,” sagði Arnar í kvöld.

 

Þjálfari Stjörnunnar var ekki ánægður með kollega sinn hjá ÍR og tók ekki í hönd hans að leik loknum en er ÍR spilaði æfingarleik á dögunum sem Arnar ætlaði að sjá þá var honum hent út úr húsinu.

„Það er greinilegt að í leiknum sem ÍR-ingarnir hentu mér út í voru þeir að æfa svæðisvörn. Ég er því rosalega ánægður að með að vinna eftir vinnubrögð þjálfara ÍR-inga þar sem hann heldur lokaðan æfingaleik þar sem mér og einni annarri manneskju sem var í íþróttahúsinu var vísað út."

„Það voru vinnubrögð sem voru gjörsamlega galin og þess vegna er ég sérstaklega ánægður með þennan sigur okkar í kvöld.”

Þrátt fyrir að vera ósáttur við þjálfarann hrósaði Arnar leik ÍR liðsins.

„Þeir voru drullu flottir í kvöld, þó ég sé ósáttur við þessi vinnubrögð hans þá eiga þeir hrós skilið því þeir voru flottir,“ sagði Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar að leik loknum.

Það var hiti eftir leikinn og Borche segist hafa reynt að taka í höndina á Arnari sem neitaði.vísir/bára
Borche: Reyndi að koma og taka í höndina á honum en hann vildi það ekki

Það var mikill hiti í Garðabæ í kvöld er Stjarnan vann góðan sigur ÍR í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar. Þjálfararnir tókust ekki í hendur í leikslok.

„Við fengum sennilega okkar besta hálfleik hingað til í fyrri hálfleik ef við teljum með undirbúningstímabilið en síðan fengum við slæman seinni hálfleik,” sagði Borche Iievski, þjálfari ÍR, í leikslok.

„Við fengum Gerald til okkar bara fyrir tveimur dögum síðan og hann á eftir að aðlagast leik okkar betur. Við erum því ekki komnir nægilega langt í okkar undirbúningnum en við eigum eftir að vinna í þessum hlutum og verðum betri þegar líður á.“

 

Spurður út í ummæli þjálfara Stjörnunnar hafði Borche þetta að segja.

„Ég veit ekki hvað hann sagði en á undirbúningstímabilinu ákvað ég að spila lokaðan æfingaleik sem hann var mættur til að horfa á, ég ákvað að þetta yrði lokaður leikur. Ástæða þess er sú að ég gat ekki fengið neinar upplýsingar um Stjörnuna og þeirra leik á undirbúningstímabilinu.”

„Ég reyndi að fá upptökur af þeirra leik frá því að þeir spiluðuð á Glacial mótinu en engin vildi láta mig hafa upptökur frá þeirra leikjum. Ég hafði því engar upplýsingar til að vinna úr, á sama tíma hafði Arnar komið tvisvar áður á okkar heimavöll til að horfa á okkur spila auk þess sem ég veit að hann fékk upptökur frá öðrum leikjum okkar á undirbúningstímabilinu.”

„Þetta er bara spurning um það að ef þú ert ekki tilbúinn til að deila upplýsingum með öðrum þá getur þú ekki vænst þess að fá upplýsingar á móti, þetta er ekkert annað en það. Ég reyndi að koma til hans að leik loknum og taka í hönd hans en hann vildi það ekki og þannig endaði það,” sagði Borche Iievski þjálfari ÍR að leik loknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira