Erlent

Kosið um Kavanaugh á morgun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tillagan var samþykkt með naumum meirihluta.
Tillagan var samþykkt með naumum meirihluta. CNN
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti rétt í þessu að setja tímamörk á umræður fyrir atkvæðagreiðsluna um dómaraefnið Brett Kavanaugh. Samþykkt var að þingmenn myndu fá 30 klukkustundir til að rökræða áður en gengið verður til atkvæða. Það þýðir að lokaatkvæðagreiðslan um útnefningu Kavanaugh til Hæstaréttar Bandaríkjanna getur farið fram eins og til hafði staðið - á morgun, laugardag.

Atkvæðin féllu nokkurn veginn eftir flokkslínum en repúblikanar eru með nauman meirihluta í öldungadeildinni, 51 atkvæði gegn 49.

Niðurstaðan þykir gefa góð fyrirheit fyrir Kavanaugh í aðdraganda atkvæðagreiðslu morgundagsins en vangaveltur höfðu verið uppi um afstöðu fjögurra þingmanna. Einn þessara þingmanna, repúblikaninn Lisa Murkowski, kaus gegn því að ganga til atkvæða um Kavananaugh á morgun. Demókratinn Joe Manchin var hins vegar fylgjandi tillögunni, rétt eins og „óákveðnu repúblikanarnir“ Jeff Flake og Susan Collins.

Þrjár konur hafa sakað Kavanaugh um kynferðisárás og alvarlegasta ásökunin kemur án efa frá Christine Blasey Ford, sem sakar Kavanaugh um að hafa reynt að nauðga sér þegar þau voru unglingar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem tilnefndi Kavanaugh, var að vonum ánægður þegar niðurstaða þingsins lá fyrir.


Tengdar fréttir

Trump hæddist að vitnisburði Blasey Ford

Blasey Ford kom fyrir dómsmálanefndina í síðustu viku og bar þar vitni vegna ásakana sem hún hefur sett fram á hendur Brett Kavanaugh, sem Trump hefur tilnefnt í Hæstarétt Bandaríkjanna.

Skýrsla FBI virðist engu ætla að breyta

Tveir af þeim þremur þingmönnum Repúblikanaflokksins sem hafa lýst yfir óákveðni með tilnefningu Kavanaugh hafa nú lýst yfir ánægju með skýrsluna.

Hundruð mótmælenda handteknir í mótmælum gegn Kavanaugh

Hundruð mótmælenda voru færðir í varðhald lögreglu fyrir utan byggingu Hæstaréttar Bandaríkjanna í nótt þar sem þeir mótmæltu Brett Kavanaugh, sem tilnefndur er af Bandaríkjaforseta til að taka sæti í Hæstarétti landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×