Lífið

Helmingur miða á aukatónleikana seldur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ed Sheeran mun halda tvenna tónleika á Íslandi í ágúst 2019.
Ed Sheeran mun halda tvenna tónleika á Íslandi í ágúst 2019. Vísir/Getty
Um helmingur þeirra miða sem í boði voru á aukatónleika Ed Sheeran þegar miðasala hófst í morgun eru nú þegar seldir samkvæmt heimildum Vísis. Aukatónleikarnir verða haldnir á Laugardalsvelli þann 11. ágúst, daginn eftir aðaltónleikana.

Í samtali við fréttastofu sagði Ísleifur Þórhallsson hjá Senu Live að miðasala á tónleikana hafi gengið vel en að þó væri enn þá eitthvert magn af miðum í boði. Hann tók þó ekki nákvæmlega fram magn umræddra miða.

Jafnframt sagðist Ísleifur ánægður með að hafa gefið fleirum færi á að upplifa tónleika með Ed Sheeran heldur en þeim sem fengu miða á upprunalegu tónleikana.

„Þeir sem nenntu ekki að taka slaginn, bíða í röð og vakna fyrir allar aldir geta bara farið á Tix.is og keypt miða í rólegheitum.“

Að lokum sagðist Ísleifur telja að seljast muni upp á aukatónleikana en tæplega 30 þúsund miðar eru í boði. Það myndi þýða að um það bil 60 þúsund Íslendingar myndu mæta á þjóðarleikvanginn til þess að hlusta á ómþýða tóna Bretans knáa.


Tengdar fréttir

Uppselt á Ed Sheeran

Ed Sheeran tónleikarnir sem fara fram 10. ágúst 2019 á Laugardalsvelli seldust upp með hraði í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu Live.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×